Óhæfir embættismenn hafa ekki aðeins teflt nýafstöðnum þingkosningum í tvísýnu með framkvæmd talningar sem flestir virðast sammála um að ekki hafi farið fram lögum samkvæmt, heldur hafa þeir brugðist þannig við í eftirleiknum að trausti okkar sem byggjum samfélagið á undirstöðunum er ógnað.

Í viðtölum við fjölmiðla hefur formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi ekki legið á skoðun sinni um eigin heilindi og skaðleysi vinnubragðanna fyrir vestan, heldur bætt í með framúrstefnulegum hugmyndum um lögmæti mistaka.

Yfirlýsingar hans í fjölmiðlum hafa lítið annað gert en að rugla kjósendur og flækja enn frekar líf frambjóðenda sem vita ekki enn þá hvort þeir hafa hlotið kjör sem alþingismenn á fjórða degi eftir kosningar. Fjölmennasti kjósendahópurinn að margra mati, sem mætti á kjörstað til að verja atkvæði sínu í þágu stöðugleika í samfélaginu eftir pólitískan óróa undanfarinn áratug, hefur líklega aldrei upplifað annan eins hraða á svikum og vonbrigðum eftir kosningar.

Þá virðist lögreglustjórinn á Vesturlandi ekki skynja hve brýnt það er að kjósendur hafi upplýsingar um hvað embættismenn og stofnanir sem leitað hefur verið til vegna þessa máls hafa gert eða hyggjast gera til að standa vörð um hið allra heilagasta í okkar samfélagi: Lýðræðið sjálft.

Fréttablaðið hefur ítrekað reynt að afla hjá honum upplýsinga um kæru endurtalningar í Norðvesturkjördæmi, hvort teknar verði skýrslur af vitnum, hvort upptaka úr öryggismyndavélum verði aflað, hvort rannsókn sé hafin, hvort hún sé í forgangi og hvenær eigi að ljúka henni.

Hér er ekki um rannsókn á einkahögum óbreyttra borgara að ræða. Svör við framangreindum spurningum geta skipt verulegu máli fyrir traust íslenskra borgara á að þeir búi, þrátt fyrir allt, í lýðræðissamfélagi og að það stjórnkerfi sem byggt hefur verið upp til að standa vörð um það, virki þegar á reynir.

Hann lætur eins og trúverðugleiki kosninga komi kjósendum bara ekkert við.

Traust er eflaust helmingurinn af þeirri blöndu sem býr til gott og farsælt samfélag. Það er brýnt að kjósendur í nýafstöðnum kosningum séu upplýstir um alla framvindu og rannsókn á þeirri ótrúlegu atburðarás sem fór af stað strax eftir kosningar.

Tortryggni íslenskra embættismanna gagnvart hugmyndinni um gegnsæi og gagnsemi hennar í þágu friðsamlegs samfélags er ekki síður skaðleg en þau meintu lögbrot sem lögreglu er falið að rannsaka, því hvers virði er lýðræðið sjálft ef lýðurinn treystir ekki að það sé til í raun og veru?