Erfitt er að átta sig á því hvað þarf til að umhverfissamtökin Landvernd láti af þeim ósóma að birta stöðugar rangfærslur og ósannindi um fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum. Engu er líkara en staðreyndum sé markvisst og meðvitað snúið á hvolf hjá samtökunum - nú síðast í grein hér á vef Fréttablaðsins eftir nýkjörinn formann samtakanna.

Í greininni er að finna ýmsar fullyrðingar sem standast ekki skoðun. Hér verður tæpt á nokkrum þeirra. Reyndar vekur það furðu að nýr formaður í stærstu umhverfissamtökum Íslands skuli ekki kynna sig til leiks á breiðari grunni og fjalla t.d. um hlutverk Íslands í umhverfisvernd á alþjóðavísu og þá vá sem steðjar að mannkyni í formi loftslagsbreytinga. Þess í stað kýs hann að beina öllum sínum spjótum að einu verkefni, sem þó er liður í því að draga úr kolefnislosun heimsins og svara vaxandi eftirspurn eftir hreinum orkugjöfum.

Er verndarflokkurinn líka mistök?

Formaðurinn talar um það sem mistök á sínum tíma að flokka Hvalárvirkjun í orkunýtingarflokk rammaáætlunar. Virkjunin hefur í tvígang verið staðfest í rammaáætlun – fyrst af Alþingi í 2. áfanga rammaáætlunar árið 2013 og svo í stækkaðri mynd í tillögu verkefnistjórnar um 3. áfanga árið 2016. Varla taldi verkefnisstjórnin að um mistök væri að ræða úr því að verkefnið var staðfest annað sinnið í tillögu til rammaáætlunar.

Eftir þessari flokkun hefur síðan verið unnið í góðri trú, jafnt af hálfu framkvæmdaaðilans VesturVerks sem hinu opinbera. Rammaáætlun vísar veginn og eftir henni er unnið – jafnt í nýtingu sem verndun náttúruauðlinda. Eða er verndarflokkurinn kannski líka byggður á mistökum?

Hvalárvirkjun eykur orkuöryggi á Vestfjörðum

Áfram heldur formaðurinn og fullyrðir að Hvalárvirkjun muni litlu skipta fyrir orkuöryggi á Vestfjörðum eða þjóðarhag. Með því blæs hann á niðurstöður úr spánýjum skýrslum Landsnets, sem taka einmitt af öll tvímæli um gagnsemi Hvalárvirkjun fyrir orkuöryggi á Vestfjörðum. Með þeim tengingum sem henni munu fylgja verða Vestfirðir loksins sjálfbærir í raforkuframleiðslu og jákvæðra áhrifa virkjunarinnar mun gæta um allan fjórðung. Hér gildir að það sem er gott fyrir Vestfirði er líka gott fyrir Ísland. Til að Landvernd og aðrir geti kynnt sér efni þessara skýrslna eru tenglar á þær hér: Flutningskerfið á Vestfjörðum og Tengipunktur við Ísafjarðardjúp.

Jákvæð viðhorf landsmanna til vatnsaflsvirkjana

Annað í grein formannsins er í þessum anda og með röngum formerkjum, hvort sem hann talar um fossa sem sagðir eru hverfa eða meinta jákvæða afstöðu heimamanna og landeigenda til hugmynda um friðlýsingu á því svæði sem virkjuninni er ætlað að rísa. Hugmyndir um friðlýsingu virðast ekki byggja á vísindalegum rannsóknum á þessu tiltekna svæði - í það minnsta er fátt um svör frá Náttúrufræðistofnun Íslands þar um.

Ný viðhorfskönnun Gallup, sem gerð var fyrir Vestfjarðastofu, sýnir ennfremur að landsmenn eru almennt mjög jákvæðir í garð vatnsaflsvirkjana. Þess utan telur mikill meirihluti landsmanna að Hvalárvirkjun muni hafa jákvæð áhrif á raforkumál, atvinnulíf, samgöngur og búsetu á Vestfjörðum.

Að endingu leyfi ég mér að snúa orðum formanns Landverndar, um áhrif mögulegrar friðlýsingar, upp á Hvalárvirkjun en fylgjendur virkjunar telja að hún muni hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Vestfjörðum, ekki síst í minnsta sveitarfélagi landsins. Hvalárvirkjun er „til þess fallin að skapa ný atvinnutækifæri til langs tíma, í ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og í afleiddum greinum. Þetta er mikilvægt fyrir framtíð Árneshrepps þar sem byggðin er afar brothætt.“

Höfundur er upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði.