Á unglingsárum mínum á sjöunda áratugnum varð hippahreyfingin mjög áberandi. Menn gagnrýndu ríkjandi þjóðfélagskerfi og prédikuðu nýjan lífsstíl. Tim Leary og fleiri gúrúar boðuðu fagnaðarerindi skynörvandi og hugvíkkandi efna til að losa um gamlar hömlur og kreddur. Þessar kenningar náðu flugi en margir efuðust og hugbreytandi efnin voru smám saman bönnuð. Allt fer í hringi og nú hafa ofskynjanaefni gengið í endurnýjun lífdaga sem töfralausn við öllum mögulegum geðkvillum. Fjölmargir hafa vitnað um lækningamátt þessara efna. Engar óyggjandi rannsóknir liggja þó fyrir um yfirburði þessara efna gagnvart öðrum meðferðarúrræðum. Geðlæknar vara við auglýsingamennsku og popúlisma í kringum þessi efni þar sem þau séu á engan hátt fullrannsökuð. Margir gamlir fíklar hafa barist fyrir notkun hugbreytandi lyfja. Neysla ofskynjunarefna í lækningaskyni hljómar mun betur en hversdagsleg misnotkun. Enn og aftur er í tísku að kafa í sálardjúpin og finna sjálfan sig og tala í innihaldslausum frösum.
Fyrir Alþingi liggur tillaga þess efnis að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á hugvíkkandi efnum. Þessi tillaga ber vott um forræðishyggju og æpandi vanþekkingu á eðli vísindarannsókna. Það er í tísku að kasta rýrð á hefðbundnar geðlækningar. Viðkomandi þingmenn vilja vera hipp og kúl og boða nýtt fagnaðarerindi.
Gamlir læknar hafa lært á langri ævi að það eru engar töfralausnir til. Öll lyf hafa sínar aukaverkanir. Frjáls og óheft notkun ofskynjanaefna til lækninga yrði fljót að snúast upp í andhverfu sína. Tilraunastarfsemi Timothy Learys rann út í sandinn fyrir nokkrum áratugum og hætt er við að þessi bylgja fari sömu leið. n