Sú mynd er að dragast upp af ráðslagi við rekstur Sorpu að þar sé ekki allt með felldu. Fréttir voru fluttar af því í vetur að framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöð sem fyrirtækið ákvað að ráðast í, hafi farið alvarlega úr böndum og framúrkeyrsla við framkvæmdina nemi hálfum öðrum milljarði. Samtals horfir þá í að heildarkostnaður verði rúmir fimm milljarðar. Það er nógu slæmt. Við bætast svo efasemdir um að eftirspurn sé eftir afurðunum sem út úr þessari gas- og jarðgerðarstöð eiga að koma. Í vikunni var til dæmis haft eftir formanni Bílgreinasambandsins í Fréttablaðinu, að bílaframleiðendur hafi hætt þróun á bílum sem ganga fyrir metani. Þá hafa verið settar fram efasemdir opinberlega, um að moltan sem á að framleiða í jarðgerðarhluta stöðvarinnar, sé frambærileg til síns brúks.

Það var sem sagt í vetur sem stjórn félagsins vaknaði upp við að kostnaðaráætlanir við byggingu stöðvarinnar virtust ekki einu sinni hafa verið hafðar til hliðsjónar við ákvarðanir sem teknar voru um verkið, svo miklu skeikaði á þeim og þeim kostnaði sem í virtist stefna. Þetta var reyndar í kjölfar skýrslu sem innri endurskoðun Reykjavíkurborgar vann um fyrirtækið, en að frumkvæði stjórnarinnar.

Lausnin á því var að reka forstjórann. Eftir dramatíska atburðarás varð það niðurstaðan. Ekki virtist koma til greina að stjórnin sjálf, sem á að sinna eftirlitshlutverki með starfseminni og gæta að innra eftirliti og eftirfylgni, liti sér nær í þeim efnum. Það er ekki alltaf lausn við vanda að menn segi sig frá störfum og stundum eru þeir sem búa til vanda, hæfastir til að leysa hann. Það er óvíst að það eigi þó við í þessu tilviki því fleira kemur til. Sorpa er mikilvægt innviðafyrirtæki sem annast förgun úrgangs íbúanna. Og það er enginn að ætlast til þess að hagnaður sé af þeirri starfsemi. En það er á hinn bóginn ætlast til að ráðdeild sé í rekstrinum og mikilvæg verkefni félagsins séu innt af hendi á eins hagkvæman hátt og mögulegt er.

Það er svo sjálfstætt mál hvernig Sorpa ætlar að bregðast við þeim vanda sem við blasir þegar í ljós kemur að hvorki er markaður fyrir gasið né moltuna. Ekki er víst að neinar aðrar hugmyndir verði uppi en að hækka álögur á íbúa þeirra sveitarfélaga sem eiga fyrirtækið.

Meinið í þessu öllu liggur í því að hinir kjörnu fulltrúar sveitarfélaganna líta á stjórnarsetur í fyrirtækjum sem eru í eigu sveitarfélaganna sem þeir voru kosnir til forystu fyrir, sem aðferð til að bæta sín kjör, en síður að gæta að þeim hagsmunum sem þeim er trúað fyrir. Þó eru ekki greidd nein sultarlaun fyrir setu í bæjarstjórnum og borgarstjórn.

Sveitarstjórnarmenn eiga ekki að sitja í stjórnum fyrirtækja á borð við Sorpu. Því þarf að breyta. Það má vel vera að þeir séu vel fallnir til að sitja í sveitarstjórn, en þeir verða ekki sjálfkrafa heppilegir til stjórnarsetu í fyrirtækjum í eigu sveitarfélagsins, enda að jafnaði reynslulitlir í fyrirtækjarekstri.