Ég er mikið að vinna með „allt er betra en ekki neitt“. Mér finnst þetta frábært hjá mér. Ég get svo oft platað mig til að byrja á hinu og þessu með slíku hugarfari. Ekki svo fullkomið að það takist alltaf, en mjög oft. Til dæmis er kemur að hreyfingu. Á mínum aldri er mikilvægt að hreyfa sig, og auðvitað alltaf, en ekki minna er maður fer að eldast. Eins og einhver sagði um líkamann: If you don’t use it, you loose it. Þegar ég nenni ekki að fara og lyfta hugsa ég: „Ég ætla bara að vera stutt og gera smá.“ Mjög oft er ég stutt og geri bara smá, sem er samt betra en ekki neitt.

Oft nenni ég ekki að þrífa, hugsa með mér að ég ætli bara að ryksuga hjónaherbergið. Ég geri það en tek svo kannski ganginn líka.

Ég er að deila þessu til þeirra sem eru fastir í allt eða ekkert hugsun. Ég var mikið þar einu sinni og dett þangað endrum og sinnum. Held ég sé með skikkju og reyni að gera mikið og margt og helst allt í einu. En það er bæði erfitt og slítandi. Gott að flæða svolítið og gera smá og vera ekki fastur í einhverjum fasista-listum (sem maður útbýr sjálfur) um hvað þarf að gera og hvenær og hversu mikið. Það er líka svo oft sem það allt mistekst hjá manni. Þá verður maður svo leiður.

Ég man að amma mannsins míns, sem varð 101 árs, sagði einu sinni við mig: „Þegar það er mikið að gera og maður veit ekki hverju er best að byrja á, er best að leggja sig í smástund.“ Frábært ráð. Það á líka við ef maður er mjög þreyttur. Gott að stinga sjálfum sér í hleðslu í 15 mínútur og slaka bara á. Leggjast niður og hlusta á hugleiðslu, podkast eða eitthvað annað. Gefa sér smá slaka. Allt verður auðveldara og skýrara á eftir.