Of margir, að minnsta kosti þeir sem láta til sín taka á samfélagsmiðlum, hafa gleymt mikilvægri þumalputtareglu: Allir eru nettir. Af því að þetta er þumalputtaregla þá veitir hún svigrúm til að nægur fjöldi fólks falli ekki undir hana, eða 20 prósent. Við erum jú mannleg.

Við það vaknar spurningin, jafnvel þótt það séu ekki allir nettir, hvaða máli skiptir það? Af hverju að blóta einhverjum í sand og ösku fyrir tiltekna skoðun? Hverju erum við sem einstaklingar eða samfélag bættari? Að stilla viðhorf sitt til lífsins á þessa vegu skapar viðkomandi gremju og óánægju og getur að sjálfsögðu sært aðra djúpt. Sjaldnast vitum við hvaða byrðar samferðafólk okkar ber.

Það er með ólíkindum hversu reiðir sumir verða þegar rætt er um hefðbundin pólitísk álitamál. „Helgi, fólk er ekki fífl … þú ert fífl,“ skrifaði ósáttur lesandi þegar ég gagnrýndi málflutning þeirra sem vilja ekki selja Íslandsbanka. Annar ókunnugur bætti um betur: „Þetta er viðrini og verður aldrei annað.“ Sú setning er í uppáhaldi hjá mér enda hef ég lært að hafa gaman af svona vitleysu.

Það er engu að síður mikilvægt að kunna að skiptast á skoðunum án þess að eitra eigið sálarlíf og annarra eða eins og séra Friðrik Friðriksson sagði við vígslu fyrsta knattspyrnuvallar Vals: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“

Það virðist loða við að embættis­menn tortryggja atvinnulífið og einkageirinn efist um hæfni þeirra koma sem starfa hjá hinu opinbera. Þessir tveir mikilvægu hópar mega ekki skipa sér í stríðandi fylkingar. Blómlegt atvinnulíf er undirstaða hagsældar landsmanna og fjármagnar gott heilbrigðis- og menntakerfi.

Fyrrverandi stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins, sem sannarlega var nettur þegar hann kenndi mér viðskiptafræði og þægilegur viðmælandi í blaðaviðtölum, sagði á dögunum: „Það er ekki hægt að finna neina betri sönnun þess að Samkeppniseftirlitið sé á réttri leið en að forsvarsmenn íslenskra stórfyrirtækja hamist gegn því með öllum tiltækum ráðum og Fréttablaðið slái því upp í fimm dálka forsíðufrétt!“

Þetta er ómálefnalegt innlegg sem því miður endurómar tíðarandann; of margir hafa skipað sér í lið sem útata andstæðinga sína. Við sem tjáum okkur opinberlega þurfum að vanda okkur og færa rök fyrir máli okkar. Sleggjudómar skilja eftir sig sviðna jörð.