Oft segir maður eitthvað velmeinandi en það kemur hins vegar þveröfugt út. Hágæðahrósið „þú ert nú meira rassgatið“ breytist auðveldlega í „you’re a real asshole“, ef ekki er vandað til verka við þýðinguna.

Á dögunum sagði Blaðamannafélag Íslands að lægsta punkti í samtímasögu íslenskrar fjölmiðlunar hefði verið náð. Tilefnið var ákvörðun Stöðvar 2 um að hætta fréttaútsendingum í opinni dagskrá.

Alvarlegur rekstrarvandi einkarekinna fjölmiðla hér á landi hefur blasað við um áraraðir enda er samkeppnisstaða þessara fjölmiðla vonlaus gagnvart hinu ríkisrekna fjölmiðlafyrirtæki RÚV. Meinið er þekkt og lækningin ætti að vera augljós. En í stað þess að ráðast að orsök meinsins ætla stjórnvöld að leggja plástra yfir sárin. Það mun ekki stöðva blæðinguna.

Vandamál fjölmiðla verður ekki leyst með því að veita þeim styrki úr ríkissjóði og gera þá þannig háða opinberu fé. Að láta þá árlega senda inn umsókn til sérstakrar úthlutunarnefndar á vegum ríkisins. Þetta mun ekki efla frjálsa og sjálfstæða fjölmiðlaumfjöllun. Þvert á móti.

Það er hreinn leikaraskapur að halda því fram að ríkisstyrkir muni ekki hafa áhrif á ritstjórnir fjölmiðla, afstöðu þeirra til málefna og umfjöllunar um þau. Allir sem háðir eru tekjum frá ríkisvaldinu munu haga sér öðruvísi gagnvart valdinu – það eru engin vísindi. Þú bítur ekki höndina sem fæðir þig.

Með fullri virðingu fyrir fréttastofu Stöðvar 2 þá felst lágpunktur íslenskrar fjölmiðlunar ekki í því að fréttir stöðvarinnar verði framvegis í læstri dagskrá, heldur í því að til standi að gera íslenska fjölmiðla að bótaþegum. Eflaust er þetta vel meint – en það mun koma þveröfugt út.