COP27 sem nýlega lauk í Egyptalandi hefur nú fengið viðurnefnið Flop27. Þrátt fyrir að náðst hafi samkomulag um nýjan loftslagssjóð þar sem efnuðu löndin leggja í sjóð fyrir þau fátækari til að mæta loftslagsvánni þá tókst ekki að ná samkomulagi um að draga þurfi hraðar úr olíunotkun. Peningalegir hagsmunir voru teknir fram yfir lifandi fólk.

Samt vitum við ósköp vel hvert stefnir. Á einum afskekktasta stað í heiminum rekur bandaríska veðurfræðistofan NOAA daglegar rannsóknir á magni koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þetta er eldfjallaeyjan Mauna Loa sem er hluti af Hawaii-eyjaklasanum. Mauno Loa komst óvænt í heimsfréttirnar í gær vegna þess að þar byrjaði stærsta eldfjall í heimi gjósa, en síðasta gaus þar árið 1984.

Samfelldar mælingar hafa farið fram á Mauna Loa-eyjunni í 64 ár. Þær sýna að koltvísýringur í andrúmsloftinu vext stöðugt, sem þýðir að gróðurhúsaáhrifin aukast, með aukinni hlýnun og náttúrulegri hringrás hlutanna. Veðurkerfi raskast, öfgar í veðurfari verða algengari og langvinnari með tilheyrandi þurrkum, flóðum, bráðnun íss og sjávarstaða hækkar. Hitabylgjur verða tíðari sem og gróðureldar, fellibyljir, súrnun sjávar eykst, dýrategundum fækkar og svo má halda áfram að telja. Hæsta CO2-gildi sögunnar mældist á Mauna Loa í maí 2021, hvort sem miðað er við núverandi mælingar eða mælingar á ískjörnum sem ná hundruð þúsunda eða milljónir ára aftur í tímann.

Margir telja að þegar saga loftslagsmála verður skrifuð, verði 27. leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna, COP27, eða Flop27 eins og gárungar segja, minnst fyrir þær sakir að á þeim fundi misstu jarðarbúar af síðasta tækifærinu til að halda hlýnun á hitastigi jarðar undir 2 gráðum en leitast við að halda henni undir 1,5 gráðum eins og markmiðið var með Parísarsáttmálanum árið 2015.

Það sjá því allir hvert stefnir og við vitum ekki hvað framtíðin á sífellt hlýnandi jörð ber í skauti sér. Það mun að öllum líkindum þýða meiri hamfarir og mannlega þjáningu, en það er enn von og tækniframfarir til að draga úr losun og sjálfbær orka eru í mikill sókn. En það kom greinilega fram á COP27 að stór gjá hefur myndast á milli þeirra sem framleiða jarðefnaeldsneyti, og vilja ekki missa spón úr aski sínum og komast upp með það, og þeirra sem draga úr loftslagsáhrifunum sem nú þegar valda milljónum manna þjáningum.