Alfa karldýrið (Alpha Male) er það karldýr eða karlmaður sem fer með völdin. Í dýraríkinu fær Alfa karlinn að makast við þau kvendýr sem hann kærir sig um og hann fer með alræðisvald yfir hópnum. Stöðu sinni heldur hann þangað til einhver annar gerir tilkall til krúnunnar og þá oft með ofbeldi. Fyrrverandi Alfa karlinn endar þá oft hrakinn burt, hæddur og smáður.

Hjá okkur mönnunum er þessu svipað háttað. Alfa karlinn er kallinn sem tekur sér yfirburðastöðu í hóp. Hann tekur sér það vald sem honum er ætlað, oftast þó án blóðsúthellinga. Hér á landi höfum við haft langa og leiðinlega hefð fyrir svona körlum.

Simpansar sem bæði eru menn og dýr fara þó blandaða leið þegar kemur að skipan í Alfa stöður.

Hjá þeim geta nefnilega minni karldýr komist til forystu með stjórnvisku en með stuðningi réttu aðilanna.

Örlög fyrrverandi Alfa karlsimpansa geta þó verið æði ólík. Þannig eru dæmi um að aðrir karlapar taki sig saman og murki lífið úr leiðtoganum í blóðugri byltingu hafi hann komið fram af óréttlæti eða grimmd. Þó eru til dæmi um hið gagnstæða þar sem Alfa apinn fyrrverandi stígur niður t.d. sökum aldurs og fær aðra stöðu innan hópsins. Gætir að ungviði og gefur ráð. Stöðu þar sem hann nýtur virðingar í krafti þess að hann sætti sig við breytta heimsmynd og nýtt valdajafnvægi. Í dag sjáum við fyrrverandi Alfa karla, menn sem óðu yfir íslenskt samfélag á síðustu öld í krafti valds og stöðu, emja sárt. Breytt heimsmynd jafnvel með Alfa konum þar sem þeir eru ekki lengur í lykilhlutverki veldur þeim gremju og reiði. Það er sárt hlutskipti. Því það er hægt að velja að stíga til hliðar með sæmd og reisn. En ekki láta fleygja sér úr hópnum með illu.