Að undanförnu hafa verið fréttir af því að íslensk sóttvarnayfirvöld hafi farið þess á leit við lyfjarisann Pfizer að Ísland verði til­rauna­land fyr­ir fjórða fasa rann­sókn á bólu­efn­i fyrirtækisins við kórónuveirunni. Um leið og viðurkennt er að það sé siðferðilega vafasamt að reyna að fá sérstakan forgang fram yfir aðrar þjóðir sem búi við alvarlegri vanda en Íslendingar, er því haldið á lofti að um yrði að ræða mikilvæga rannsókn sem gagnast myndi allri heimsbyggðinni.

Því hefur verið haldið fram að hérlendis séu sérstaklega góðir innviðir til slíkrar rannsóknar en ekki hafa komið fram skýringar á því í hverju gagnsemi þessarar rannsóknar sé fólgin eða hvað hún gæti falið í sér fyrir landsmenn og aðrar þjóðir. Okkur finnst því eðlilegt að almenningur sé upplýstur um þessa rannsókn og samfélagsleg áhrif hennar. Það er forsenda þess að hægt sé að ástunda upplýsta umræðu um málið. Í því skyni vörpum við fram spurningum í nokkrum liðum sem æskilegt væri að fá svör við.

Á okkur leita í fyrsta lagi spurningar um vísindalegt gildi og hnattræna gagnsemi rannsóknarinnar. Er líklegt að hér verði aflað þekkingar sem muni hafa þýðingarmikið yfirfærslugildi fyrir þjóðir sem búa flestar við aðstæður sem eru gerólíkar okkar? Hvaða rök eru fyrir því að rannsóknin fari fram hér á landi í ljósi þess að skortur er á bóluefni um allan heim um fyrirsjáanlega framtíð, sér í lagi hjá fátækari ríkjum heims? Bent hefur verið á að innviðir íslenska heilbrigðiskerfisins séu sterkir og því vel til þess fallnir að hýsa rannsókn af þessu tagi. Á móti kemur að telja má víst að bólusetning af þessari stærðargráðu gæti bjargað fleiri mannslífum í löndum eða borgum þar sem heilbrigðiskerfi standa nú þegar höllum fæti. Yrði ávinningur þátttakenda því ef til vill meiri ef rannsóknin færi fram annars staðar?

Í öðru lagi eru knýjandi spurningar sem varða siðferðilegt réttmæti rannsóknarinnar. Til dæmis: Hvernig á að afla samþykkis fyrir þátttöku í rannsókninni? Verður þátttaka einstaklinga skilyrði fyrir því að þeir fái bólusetningu? Hvað með stöðu þeirra sem vilja ekki taka þátt í rannsókninni? Rætt hefur verið um að bólusetja eigi tiltekinn hluta þjóðarinnar (60% hefur verið nefnt) til að kanna hjarðónæmi. Yrði þá beðið með að bólusetja þann hluta sem eftir stendur þar til rannsókninni lýkur, jafnvel þótt nægt framboð væri á bóluefni? Einnig er mikilvægt að spyrja hvaða gagna yrði aflað með rannsókninni og hverjir fengju aðgang að þeim? Er áhætta fólgin í því að heil þjóð verði rannsóknarþýði fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki?

Í þriðja lagi vakna svo spurningar sem varða lýðræði og alþjóðasamstarf. Hvernig verður reynt að tryggja lýðræðislegt lögmæti rannsóknar sem varðar alla þjóðina? Hvernig samrýmist slík rannsókn markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og annarra alþjóðastofnana um að tryggja jafnt aðgengi allra þjóða að bóluefni? Er samstarfi Íslendinga við önnur ríki ef til vill teflt í hættu með þessari rannsókn og er hætta á að hún gæti skaðað orðspor þjóðarinnar?

Upplýst samfélagsumræða er mikilvægur aðdragandi svona rannsóknar, en hún tekur tíma. Í núverandi ástandi getur verið freistandi að ýta til hliðar erfiðum spurningum en það er hluti af góðu rannsóknasiðferði og lýðræðismenningu að gefa þeim gaum.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki og stjórnarformaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands

Finnur Dellsén, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands

Hlynur Orri Stefánsson, dósent í hagnýtri heimspeki við Stokkhólmarháskóla

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri