Aldursmunur

Allt er undarlegt við þinghaldið við Austurvöll þessa síðustu daga ársins, en ekki einasta eru vel á annan tug óvæntra vara- og varavaraþingmanna mættir til starfa, heldur hefur breiddin á mannskapnum líkast til aldrei verð meiri, svo sem í aldri. Og það er kannski dæmigert að á meðan yngsti þingmaður íslenskrar stjórnmálasögu, Píratinn Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir sem fædd er í maí árið 2002, settist inn á þing í fyrradag, íklædd sínu fínasta pússi, var sá elsti innandyra, Tómas A. Tómasson fæddur í apríl 1949, nýlega búinn að biðjast afsökunar á sínum klæðaburði í pontu Alþingis.

Aukaverkin

Og enn er það dæmigert fyrir fordæmalausa Alþingið okkar á tímum samkomutakmarkana og veirusmitaðra þingmanna og ráðherra, að einn mest áberandi varaþingmaðurinn í flokki hægrimanna var staðinn að aukavinnu í miðbænum í byrjun vikunnar, altso Arnar Þór Jónsson, sem reynir að verja málstað þeirra veirusmituðu landsmanna sem neita að hlýða sóttkví, af því að þeir smiti svo lítið eða jafnvel bara ekki neitt – og megi því fara um allt – og því þá ekki á þingpalla svo fleiri varamenn verði kallaðir út?