Skólaárið var nýbyrjað þegar Tyrkir réðust inn í Sýrland þann 9. október. 80 þúsund börn þurftu að skilja allt sitt eftir og flýja. Náum við utan um slíkar tölur? Hjálpar það okkur að lesa að það samsvarar öllum börnum á Íslandi, 17 ára og yngri? Getum við ímyndað okkur að börnin okkar væru ekki á leið í leik- eða grunnskóla í dag því það væri ekki hægt að manna skólana með börnum? Þau hefðu bara öll fyrirvaralaust hlaupið út og haldið upp á hálendi í fullkomna óvissu.

Foreldrar í Sýrlandi vilja það sama fyrir börn sín og íslenskir. Allt það besta, öryggi og gleði. Börn í Sýrlandi vilja líka það sama og börn á Íslandi. Að fá að vera börn, læra, lifa og leika. Börn, sama hvar í veröldinni þau eru, deila réttindum til alls þessa þó allt of mörg séu svipt þeim. Meðal annars vegna stríðs, eins og í Sýrlandi. Því áralanga stríði var ekki lokið þegar Tyrkir gerðu innrás. Fyrir hana höfðu 530 börn fallið eða særst í átökum á fyrstu 6 mánuðum ársins.

UNICEF hefur verið til staðar fyrir börn á Sýrlandi frá upphafi við að tryggja öryggi þeirra og réttindi. UNICEF á Íslandi hefur verið með neyðarsöfnun frá því átökin þar hófust 2011 og blés nýju lífi í hana í síðustu viku. Með áskorun til Íslendinga um að skella ekki skollaeyrum við þessari nýju, auknu neyð. Margir virðast nefnilega haldnir neyðardoða gagnvart orðunum „ástandið í Sýrlandi“ – þar á meðal fjölmiðlar. Fréttir um það tryggja því miður fáa smelli. Það ætti ekki að vera svo, en þannig er það.

Við völdum að virkja fólk til að sýna hluttekningu og sækja sér sögu barna í Sýrlandi. Hringja í 562-6262 og bara hlusta. Síðan hefur þú val um að sýna þeim að þau skipti máli með því að senda sms-ið STOPP í númerið 1900 og gefa 1.900 kr.

Við megum aldrei hætta að hlusta, því hvert barn í neyð á sér sögu. Hverju barni má bjarga.