Nú skapast spennandi tæki­færi fyrir Breið­hyltinga og lands­menn alla til að fá til okkar sjálf­bæran og vist­vænan at­vinnu­rekstur í nær­um­hverfi okkar. Í um­ræðunni er að byggja gróður­hvelfingar við Stekkjar­bakka í Reykja­vík sem geta myndað skemmti­lega tengingu við Elliða­ár­dalinn. Um er að ræða hvelfingar þar sem gróður nýtur góðs af jarð­varma og skapar þannig Mið­jarðar­hafs­stemningu í Reykja­vík með fjöl­breyttum upp­lifunum svo sem kaffi­húsi og markaðs­torgi þar sem hægt verður að kaupa ferskar mat­jurtir sem verða m.a. ræktaðar á staðnum. Það stendur til að bjóða uppá fjöl­breytta upp­lifun í fjöl­skyldu­vænu um­hverfi fyrir alla aldurs­hópa, á­samt kynningum og mót­tökum hópa s.s. frá skólum, leik­skólum, vinnu­stöðum o.s.frv. Byggingarnar eru fyrir­hugaðar við jaðar Elliða­árs­dals, nánar til­tekið við Löngu­gróf og mynda því góða tengingu við úti­vistar­svæðið í Elliða­ár­dal, eins­konar vin fyrir íbúa og aðra gesti. 

Spurningar kunna að vakna varðandi að­gengi, um­ferð og gesta­fjölda. Að­gengi að dalnum á þessum slóðum er nú mjög á­bóta­vant og mun því stór­lagast með til­komu ALDIN Biodome og að­stöðu Garð­yrkju­fé­lagsins við hliðina á. Stefnt er að því að opnunar­tími ALDIN Biodome verði utan á­lags­tíma bæði morgun- og síð­degis­um­ferðar. Til að setja um­ferðar­málin í sam­hengi þá má geta þess að Laugar­dals­laug fær yfir 800 þúsund gesti á ári og er stað­sett í miðju í­búðar­hverfi og þar eru um 200 bíla­stæði sem sam­nýtast að hluta til með líkams­ræktar­stöð í ná­grenninu. Aldin Biodome stefnir að fá innan við helming þess gesta­fjölda, þannig að aukin um­ferðar­þungi ætti að vera hverfandi. Nú­verandi um­ferðar­þungi á Stekkjar­bakka er um 20 þúsund bílar á dag. Ef við gerum ráð fyrir því að við­bótin gæti orðið um 300 bílar á dag, væri það um 1,5% af heildinni. Talan 300 bílar á dag er miðað við að um 60% gesta komi á eigin bíl (miðað við 2,5 í hverjum bíl). Miðað við um 10 klst. opnunar­tíma, þá kæmu þarna um 30 bílar á klst. að meðal­tali (mest utan á­lags­tíma), en þarna keyra að jafnaði um eða yfir 15-20 bílar á mínútu á degi hverjum utan á­lags­tíma. Núna eru þetta því um 900-1200 bílar/klst svo það er ljóst að 30 bílar/klst til við­bótar við það utan hánna­tíma ættu ekki að valda neinum um­ferðar­töfum frá degi til dags. 

Til að halda hæð bygginganna í lág­marki verða þær að hluta til grafnar í jörðu. Mjúkar á­valar út­línur ein­kenna gler­hvelfingarnar en auk þess verður hluti bygginga undir torfi. Þetta þýðir að hæsti punktur verður einungis um 9 metrar en tré sem nú þegar eru á svæðinu eru mörg um 12 metra há. Reynt verður að leitast við að láta gróður sem fyrir er á staðnum nýtast á­fram á svæðinu, þannig að byggingarnar sjást tak­markað frá dalnum og ná­grenninu. Verk­efninu eru settar háar kröfur varðandi lýsingu og verða að fylgja reglum og við­miðum varðandi ljósa­notkun. Búið er að mæla nú­verandi ljós­mengun á svæðinu sem er í dag tölu­verð og ó­lík­legt er að hún aukist við þessa upp­byggingu, enda mikil ljós frá um­ferða­r­æðum í kring sem og frá ljósa­staurum við göngu- og hjóla­stíga í dalnum. Ljósin í Biodome eiga að líkja eftir sólar­gangi við Mið­jarðar­haf, sólar­upp­rás á morgnana og lýsing svo í lág­marki yfir nóttina. 

Við höfum fylgst náið með þessu verk­efni, sem fyrir­tækið Spor í sandinn hefur staðið að, og okkur sýnist að þarna sé um að ræða metnarðar­fullt verk­efni unnið af fag­mennsku þar sem hug­sjónir eru hafðar að leiðar­ljósi. Þetta verk­efni er á heims­mæli­kvarða, en þess má geta að verk­efnið hefur nú þegar hlotið viður­kenningu á al­þjóð­legum vett­vangi. Við þurfum svona metnaðar­fullt hug­sjóna­verk­efni sem veitir okkur mögu­leika að mörgum spennandi upp­lifunum í nota­legu um­hverfi. 

Breið­hyltingar og allir lands­menn - tökum þessu fagnandi!

Höfundar eru íbúar í nágrenninu sem um ræðir.