Bakþankar

Álaguðspjall

Álar eru furðuleg kvikindi og búa yfir mörgum leyndardómum. Langt fram á síðustu öld var mönnum hulin ráðgáta hvernig þeir fjölguðu sér. Aristóteles taldi að þeir spryttu upp úr moldinni og tvö þúsund árum síðar ætlaði nítján ára gamall metnaðarfullur stúdent í Trieste, Sigmund Freud, að ráða álagátuna og skar upp fjögur hundruð ála í leit að karlkynsskepnu en fann ekki eina einustu. Hann sneri sér þá að auðleystari verkefnum eins og sálgreiningu.

Nú er sænskur rithöfundur, Patrik Svensson, að leggja lokahönd á svokallað Álaguðspjall (frábær titill!) þar sem hann fléttar saman sögum af þessari merkilegu skepnu og hugljúfri fjölskyldusögu. Bókin á að koma út í Svíþjóð næsta haust. Mér finnst þetta spennandi, enda áhugakona um ála.

Og ég er sannarlega ekki ein. Handritið er komið á fyrir-messu-flug. Í næstu viku verður haldin bókamessa í London, meiriháttar vörusýning, þar sem réttindi til að þýða og gefa út bækur ganga kaupum og sölum. Fyrir viku bárust fréttir af því að stór breskur útgefandi hefði keypt réttinn að þessari óútkomnu bók um ála og feðga, tveir aðrir fylgdu í kjölfarið með svo góðum tilboðum að þeim varð ekki hafnað og síðast þegar ég tók stöðuna stóðu yfir uppboð í tíu löndum.

Áll hrygnir í Þanghafinu við austurströnd Mið-Ameríku og lirfurnar berast með Golfstraumnum að ströndum Evrópu og Ameríku, þetta er ekkert smá ferðalag. Skepnan tekur ótrúlegustu stakkaskiptum á lífsleiðinni, syndir upp ár og ef fossar eru í veginum skríður hún á blautum steinum og grasi. Allur áll deyr eftir hrygningu.

Skil ekkert í því að Álaguðspjallið hafi ekki verið skrifað fyrir löngu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing