Kosningarnar fram undan eru á tímamótum í íslensku samfélagi. Saman höfum við undanfarin misseri tekist á við heimsfaraldur kórónuveiru með góðum árangri. Að sama skapi hafa efnahagslegar og félagslegar aðgerðir stjórnvalda skilað sér í því að íslenskt samfélag spyrnir nú við af krafti þegar lífið færist smám saman í eðlilegra horf.

Í kosningunum á laugardag hafa kjósendur skýrt val um það hvaða sjónarmið verða höfð að leiðarljósi í uppbyggingunni fram undan. Sýn okkar Vinstri-grænna um það hvað skuli setja í forgang er skýr. Hún er að atvinnuuppbygging á Íslandi verði græn og fjölbreytt, að almannaþjónustan og félagslegir innviðir verði áfram efldir og að við tökum forystu í aðgerðum gegn loftslagsvánni.

Græn og spennandi framtíðarstörf

Í fyrsta lagi eigum við að halda áfram á þeirri braut að styðja við grunnrannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Hugverkaiðnaðurinn er mikilvægur vaxtarsproti og stendur nú undir um 16% af okkar útflutningstekjum. Það segir þó ekki alla söguna því þessi áhersla skilar sér í aukinni verðmætasköpun í öllum greinum: matvælaframleiðslu, iðnaði og ferðaþjónustu. Þarna eru tækifæri til að skapa ný og spennandi framtíðarstörf og við verðum að nýta þau.

Forysta í loftslagsaðgerðum

Í öðru lagi á að ýta undir atvinnuuppbyggingu sem stuðlar að grænum störfum, störfum sem styðja beinlínis við markmið okkar í loftslagsmálum. Ísland hefur staðið sig vel í náttúrulegum lausnum í kolefnisbindingu, til dæmis landgræðslu, og núna er það íslenskt hugvit sem er á bak við tæknina sem dælir kolefni í berg og bindur þannig að það umbreytist í berg. Grænar lausnir eru mikilvægur þáttur í baráttunni við loftslags­vána en þeim samhliða þurfum við að gera betur í samdrætti í losun. Vinstri-græn setja fram sjálfstætt markmið um 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að Ísland verði kolefnislaust eigi síðar en 2040 og óháð jarðefnaeldsneyti eigi síðar en 2045. Ísland getur tekið forystu í þessum málum og á að gera það.

Betri lífskjör fyrir okkur öll

Í þriðja lagi skiptir máli að félagsleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við uppbygginguna. Þær áherslur Vinstri-grænna voru skýrar á kjörtímabilinu og skiluðu meðal annars lengingu fæðingarorlofs, hækkun atvinnuleysisbóta, virkum vinnumarkaðsaðgerðum, hækkun barnabóta og þrepaskiptu skattkerfi sem dreifir skattbyrðinni með réttlátari hætti. Allt hefur þetta haft þau áhrif að á kjörtímabilinu hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist. Sem dæmi má nefna að hjá pari með lægstu laun með tvö börn að meðtöldum barnabótum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um tæp 12% á kjörtímabilinu.

Við Vinstri-græn leggjum áherslu á að byggja áfram upp almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlán en þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa skilað auknu framboði á húsnæðismarkaði og tryggja tekjulágum fjölskyldum öruggt þak yfir höfuðið. Stjórnvöld hafa skyldum að gegna til að tryggja öruggt húsnæði fyrir okkur öll og marka stefnuna um þróun húsnæðismarkaðarins. Áframhaldandi efling barnabótakerfisins er annað mikilvægt mál sem við leggjum áherslu á og þannig léttum við líf barnafjölskyldna í landinu. Þá þarf að hækka grunnframfærslu almannatrygginga og forgangsraða því að bæta kjör þeirra verst settu í þeim hópi. Og við Vinstri-græn viljum taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt sem styrkir jöfnunarhlutverk skattkerfisins og tryggir að fjármagnseigendur leggi sitt af mörkum til samfélagsins eins og venjulegt launafólk.

Efling almannaþjónustu

Að lokum skiptir máli að halda áfram uppbyggingu almannaþjónustunnar. Við Vinstri-græn höfum lagt áherslu á að efla heilbrigðiskerfið og menntakerfið á kjörtímabilinu og það skiptir máli að standa vörð um þann árangur og efla þessar grunnstoðir enn frekar. Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki sem við eigum og er um leið undirstaða þess að geta byggt fjölbreyttara atvinnulíf. Við viljum tryggja jöfn tækifæri til náms, til dæmis með því að afnema sérstök skólagjöld í listnámi á háskólastigi og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Við viljum halda áfram eflingu heilbrigðisþjónustunnar og að draga enn frekar úr kostnaði sjúklinga – enn eitt stórmálið sem snýst um heilsufarslegan jöfnuð.

Hvernig samfélag viljum við?

Samfélag þar sem við tryggjum velsæld okkar allra, þar sem við getum öll notið þeirra tækifæra sem landið hefur upp á að bjóða, samfélag sem tekur forystu í baráttunni gegn loftslagsvánni, samfélag þar sem við byggjum hagsæld okkar á aukinni grænni verðmætasköpun og hugviti: Það er samfélagið sem við Vinstri-græn viljum beita okkur fyrir.