Fyrir nokkrum áratugum var ég meðlimur í málfundafélagi. Lög klúbbsins mæltu fyrir um að ákveðinn fjöldi mætti vera í félaginu. Einhverju sinni losnaði eitt sæti og tveir kunningjar mínir sóttu um. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra og gaf því báðum atkvæði mitt. Forseti klúbbsins hló hæðnislega þegar hann opnaði atkvæðaseðilinn og sagði: „Hér er einn sem gat ekki ákveðið sig.“

Ákvarðanafælni hefur alltaf fylgt mér. Stundum er eins og ég taki ákvörðun um að taka ekki ákvörðun og láta reka á reiðanum sem lengst. Það er reyndar ávísun á óbreytt eða versnandi ástand. Sálfræðingurinn minn segir að mestu máli skipti að taka einhverja ákvörðun og standa undir henni. Mér gengur það illa.

Ég sagði honum að þetta væri fjölskyldusjúkdómur. Sturla Sighvatsson frændi minn var eins og ég, ákvarðanafælinn sveimhugi. Á ögurstundu eigin lífs að Örlygsstöðum gat hann ekki ákveðið hvort hann mundi berjast eða ekki. Andstæðingarnir gengu á lagið og drápu Sturlu áður en hann gat ákveðið sig.

Mér datt þetta í hug á dögunum þegar konan mín vildi kaupa bíl. Við skoðuðum mikinn fjölda bíla og ræddum við tungulipra sölumenn. Einn bíll var valinn og okkar metinn og samið um milligjöf. En ég var sem lamaður. Á endanum var ákveðið að eiga gamla bílinn áfram.

Um nóttina dreymdi mig Sturlu frænda sem sagði: „Við hefðum verið góðir saman á Örlygsstöðum. Mér finnst samt að þú hefðir átt að kaupa nýja bílinn.“ Ég vaknaði upp með andfælum og hringdi í sölumanninn sem sagði að því miður væri bíllinn seldur.