Hópur fólks kallar nú eftir nýrri stjórnarskrá. Eða, réttara sagt, krotar eftir nýrri stjórnarskrá. Það var ljóst frá upphafi að það var ekki góð hugmynd að skipa stjórnlagaráð með fólki sem hafði flest hvorki sérfræðiþekkingu né lýðræðislegt umboð til að skrifa nýja stjórnarskrá. Það væri sambærilegt því að við myndum skipa þríeyki með áhugafólki til að takast á við veiruna. Það á við um báða þessa málaflokka að endanleg afgreiðsla þarf að vera í höndum lýðræðislega kjörins fólks, en undirbúningsvinna í höndum fagfólks.

Stjórnarskrá kveður á um grunnuppbyggingu ríkisins og grunnréttindi fólks. Það er ekki þörf á því að setja nýjar stjórnarskrár nema til standi að gjörbylta stjórnkerfinu, til dæmis breyta konungsveldi í lýðveldi. Á þeim 76 árum sem stjórnarskráin hefur verið í gildi hafa ákvæði hennar verið dýpkuð og skýrð með beitingu hennar. Með því að setja nýja stjórnarskrá væri því öllu hent út um gluggann og við færum inn í tímabil mikillar réttaróvissu, til dæmis um mannréttindi landsmanna.

Alþingi samþykkti árið 2012 þingsályktun sem nefndist þingsályktun um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Það blasir við að þeirri atkvæðagreiðslu var aldrei ætlað að vera bindandi. Í besta falli gæti hún talist pólitískt bindandi fyrir það fólk sem greiddi henni atkvæði sitt, en aðeins þrjú þeirra sitja enn á þingi.

Stjórnarskráin hefur reynst okkur vel. Í stað þess að kollvarpa henni er farsælast að gera nauðsynlegar breytingar á henni að lokinni vandaðri vinnu og í víðtækri sátt.