Þegar fyrsta Jarðarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Stokkhólmi 1972, vöruðu vísindamenn við þeirri hættu sem stafaði af óheftum ágangi á plánetu með takmarkaðar auðlindir. Lítið hefur breyst á þeim 50 árum sem liðin eru þó svo að aldrei hafi verið brýnna að bregðast við en nú. Á hverju ári göngum við sífellt fyrr að þolmörkum sjálfbærni jarðarinnar og þar með, varanlega á náttúruauðlindir okkar.

Við erum borgarstjórar allsstaðar að úr heiminum og verðum áþreifanlega vör við afleiðingar loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á borgirnar okkar sem hvetur okkur til að bregðast við til verndar borgarbúum og heilsu þeirra. Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessum ógnum, og við stöndum saman í því að finna lausnirnar. Borgirnar okkar eru einstaklega kvikar og snjallar, og veita góða umgjörð fyrir íbúana til þess að þeir geti tileinkað sér grænan lífsstíl.

Í ár verður haldinn fjöldi alþjóðlegra viðburða sem eru mikilvægir fyrir borgirnar okkar. Þar ber hæst tvær ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna – annars vegar er Loftslagsráðstefnan í Glasgow og svo hins vegar ráðstefna um líffræðilegan fjölbreytileika sem haldin er í Kunming í Kína. Þar verða samþykktar áþreifanlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um meira en tvær gráður. Við skorum því í dag, á Degi jarðarinnar, á alla hagsmunaaðila að standa við skuldbindingar sínar, nú þegar fimm ár eru liðin frá undirritun Parísarsáttmálans.

Í tilefni af því að fimm ár voru frá Parísarfundinum í desember sl. undirrituðum við sérstaka Parísaryfirlýsingu þar sem við hvetjum borgir heims til samstarfs. Alls hafa 133 borgir undirritað yfirlýsinguna, sem styður verkefnið Race to Zero – eða kapphlaupið að kolefnishlutleysi – sem er það markmið sem Sameinuðu þjóðirnar setja fyrir næstu loftslagsráðstefnu. Þannig vörpum við ljósi á aðgerðir okkar til að ná kolefnishlutleysi með því að draga úr kolefnislosun á stórfelldan hátt í borgunum okkar.

Fyrir 2030 eiga ríki að hafa sett sér betri og metnaðarfyllri áætlanir um að draga úr útblæstri. Sameiginlegar skuldbindingar ríkjanna eru að verja árlega 100 milljörðum dollara til að ná því marki. Geri þau það ekki kemur það harðast niður á fátækari svæðum sem ekki hafa ráð á slíkum aðgerðum. Loftslagsaðgerðir verða því að vera hvoru tveggja sanngjarnar og stuðla að auknum jöfnuði.

Það er komið að ögurstundu. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er yfirþjóðleg og viðbrögðin verða að vera þvert á þjóðir og landamæri. Ef viðbrögðin taka aðeins tillit til okkar eigin aðstæðna án alþjóðlegrar yfirsýnar, samstöðu og stuðnings, munum við aldrei ná settu marki. Það er skylda okkar að endurvekja vonir næstu kynslóða um lífvænlega framtíð þrátt fyrir kreppur, hamfarir og faraldra. Því veljum við Dag jarðar til að árétta ákall okkar til ríkisstjórna heims um að herða sig í loftslagsbaráttunni til að vernda jörðina okkar og verðmæti okkar sameiginlegu auðlinda.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, ásamt borgarstjórum Aþenu, Barcelona, Brazzaville, Bogota, Búdapest, Buenos Aires, Dakar, Dortmund, Flórens, Genfar, Glasgow, Haïfa, Helsinki, Lausanne, Liège, Lissabon, Ljubljana, Manchest­er, Mílanó, Namur, Parísar, Riga, Sao Paulo, Tókýó, Valencia og Varsjár.