Það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum. Hnattræn hlýnun stefnir nú í u.þ.b. 2.4 gráður frá iðnbyltingu, mögulega 1.8 gráður í allra besta falli. Hvoru tveggja er langt umfram það 1.5 gráðu alþjóðlega markmið sem er algjör rauð lína sem ekki má feta yfir þar sem vendipunktar munu bresta og alvarlegar afleiðingar fylgja fyrir samfélög og lífríki Jarðar.

Þetta voru vondu fréttirnar. En góðu fréttirnar eru að það er enn smuga til að leiðrétta stefnu okkar og takmarka hlýnun við 1.5 gráðu, til þess vantar einungis upp á pólitískan vilja frá ykkur sem sitjið á Alþingi fyrir hönd okkar almennings, þ.m.t. ungs fólks og framtíðarkynslóða.

Þrátt fyrir að COP26 hafi ekki verið algjört klúður og að nokkrum litlum áfangasigrum hafi verið náð, þurfum við að ganga mun lengra í loftslagsaðgerðum á heimsvísu og það strax. Þetta á sérstaklega við um Ísland sem og allar aðrar Vestrænar þjóðir. Þessi 26. aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, ásamt þeim sem á undan komu, mótuðu einungis ákveðinn ramma fyrir þær aðgerðir sem þarf nú að hrinda í verk í hverju landi fyrir sig, en alvöru loftslagsávinningurinn þarf að eiga sér stað hér heima.

Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar

Í september gáfum við í Ungum umhverfissinnum stjórnmálaflokkunum einkunn fyrir umhverfis- og loftslagsmál í stefnum þeirra. Sólin er ekki hætt að skína þó kominn sé vetur og höfum við tekið saman þau málefni úr Sólarkvarðanum sem eru með meirihluta á þingi, að því gefnu að þingmenn kjósi samkvæmt stefnu síns flokks inni á þingi. Þetta eru 22 málefni af þeim 78 sem metin voru og er ánægjulegt að sjá svo breiða samstöðu (kvarðann má sjá í heild sinni á www.solin2021.is). Við sjáum ekkert því til fyrirstöðu að þessi mál fái snögga og góða afgreiðslu þingsins þegar það tekur til starfa.

Einnig höfum við tekið saman hvaða málefni þeir þrír flokkar sem sitja nú við stjórnarmyndunarviðræðuborðið fengu öll stig fyrir í Sólarkvarðanum og höfum við sent þessa samantekt á formenn flokkanna. Fyrsta málefnið sem flokkarnir þrír virðast sammála um er að tekið verði tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun, en þetta er stærsti losunarþáttur Íslands og því brýnt að taka fast á þessari losun. Flokkarnir þrír eru einnig sammála um að endurbæta þurfi styrkjakerfi landbúnaðarins og er þetta bráðnauðsynlegt til að færa bændum aukið frelsi og gera þeim kleift að stunda fjölbreyttari og sjálfbærri landbúnað og þar af leiðandi takmarka skaðleg umhverfisleg áhrif afurða sinna. Síðan vilja flokkarnir fyrirbyggja og lágmarka úrgang, auka áherslur á vistvænar samgöngur, auka sveigjanleika í vinnu, og síðast en ekki síst auka áherslur á samráð og að virkja almenning í ákvarðanatöku, sem við fögnum.

Ungir umhverfissinnar skora á komandi ríkisstjórn, fyrir hönd framtíðarkynslóða og þeirra sem eru þegar að þjást vegna loftslagshamfara, að taka umhverfis- og loftslagsmálum alvaralega. Við skorum á ykkur að setja inn í stjórnarsáttmálann þessi sex mál sem stefnur stjórnarflokkana eiga sameiginlegt. Það liggur í augum uppi að þessi mál fái forgang, verði afgreidd skjótt, og auðvitað í fullnægjandi samráði við almenning. Enn fremur viljum við sjá sem flest af þessum 22 málum sem eru með meirihluta á þingi rata inn í sáttmálann og að þau fái líka snögga afgreiðslu. Þetta snýst nefnilega um að við gerum þetta saman.

Eruð þið tilbúin að hlusta?

Það að takast á við loftslagsvánna er ekki gert “til þess eins” að bjarga loftslaginu eða lífríki Jarðar, heldur er það hreinlega nauðsynlegt til að bjarga okkur sjálfum. Loftslagsbreytingar eru fyrst og fremst jafnréttismál þar sem þau lönd og samfélög sem eru að verða fyrir verstu afleiðingunum hafa í flestum tilfellum gert hvað minnst til að skapa vandann. Náttúruhamfarir eru að verða tíðari og skæðari, og innviðir munu verða fyrir skaðlegum áhrifum þeirra. Það að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga er mun dýrara en að grípa strax til forvarnaraðgerða. Hagur lands okkar, fyrirtækja, stofnana og allra samfélagshópa er því undir því kominn hvernig og hve hratt við sem þjóð bregðumst við. Það þarf að taka harðar og hraðar á loftslagsvánni, hvort sem aðaláherslur okkar liggja í jafnréttismálum, innviðamálum, eða fjármálum.

Loftslagsbreytingar eru þver-pólitískt mál og við biðjum ykkur fyrir hönd ungs fólks og framtíðarkynslóða að koma ykkur að efninu og ráðast í alvöru og fullnægjandi loftslagsaðgerðir, og það strax. Við unga fólkið höfum upplýst ykkur í valdastöðum um hvað okkur finnst þurfa að gera. Stóra spurningin nú er einfaldlega, eruð þið tilbúin að hlusta og taka mark á okkur? Það þarf hugrekki til, en okkur langar að trúa að þið hafið það.

Við munum fylgjast grannt með því hvernig þessi málefni úr Sólarkvarðanum verða afgreidd á Alþingi á næstu vikum, mánuðum, og árum, og erum tilbúin í samtal hvenær sem er. Augun hvíla á ykkur, ekki bregðast okkur.

Höfundar eru loftslagsfulltrúi og gjaldkeri Ungra umhverfissinna.