Dimmustu dagar ársins ganga nú í garð. Myrkrið hefur á sér illt orð. Á líkingamáli táknar veturinn gjarnan þurrð, jafnvel missi. Svo kann þó að vera að veturinn gefi meira af sér en við höldum.

Leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir ók bifreið sinni um gatnamót Grensásvegar og Ármúla þegar hún mundi skyndilega ekki hvar hún var, hvert hún var að fara og hvort rautt umferðarljós merkti að hún ætti að nema staðar eða aka áfram. Í nýjum þætti Okkar á milli ræddi Kristín Þóra við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur um alvarleg veikindi sem hún glímdi við. Í ljós kom að Kristín Þóra þjáðist af örmögnun vegna álags. Tjáði læknir henni að hygðist hún ná bata yrði hún að stíga út úr hringiðu lífsins og fara í veikindaleyfi.

Í nýlegri metsölubók sinni Vetrarvist (Wintering) skrifar breski rithöfundurinn Katherine May um eigin reynslu af álagi. Þegar eiginmaður hennar gekkst undir skurðaðgerð vegna botnlangabólgu, sonur hennar komst ekki í skólann vegna kvíða og breytingar urðu á vinnuhögum hennar féll May „gegnum net hversdagsheimsins“, eins og rykarða milli gólffjala, inn í kalda og dimma veröld sem hún kallar „einhvers staðar annars staðar“. Þar sat hún föst, ósýnileg eins og draugur, meðan aðrir héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist. En May til furðu reyndist það í myrkrinu sem hún sá ljósið.

Mitt í Bláa lóninu

Ekki er langt síðan mannkyninu varð ágengt í baráttu sinni gegn myrkri. Almenn gaslýsing á götum úti hófst í London við upphaf 19. aldar. „Þar sem ég geng eftir strætum að næturlagi á ég í eilífu, upplýstu samtali við hið trausta, hljóða en árvökula gas,“ skrifaði blaðamaðurinn George Augustus Sala árið 1859. „Gasið kennir mér, gasið huggar mig, gasið vísar mér veginn …“

Ekki voru þó allir jafnhrifnir. Hópar fólks fóru um borgir með löng prik og brutu gaslampana sem þeir álitu stjórntæki yfirvalda; það sem sást, því mátti stýra. Fleiri ástæður liggja þó fyrir því að standa ber vörð um myrkrið.

Það var í vetrarkulda á Íslandi sem Kather­ine May uppgötvaði heilunarmátt myrkursins. Hún hafði stigið upp í flugvél norður á bóginn því hún var full örvæntingar; ef maður snéri sig á ökkla setti maður ís á liðamótin – hvers vegna ekki að gera það sama við sálina?

Í bók sinni segir May mannkynið virðast halda að lífið eigi að vera samfleytt sumar, línulega vegferð í átt að framförum uns tindi er náð. En mitt í Bláa lóninu áttaði May sig á að þannig hagar náttúran sér ekki. Plöntur og dýr þjösnast ekki gegnum veturinn eins og ekkert hafi í skorist. Dýr leggjast í dvala. Tré fella lauf sín. Á veturna dregur náttúran saman seglin, sparar þrekið, nærist, sefur, jafnar sig. May telur mannfólkið hafa glatað hæfileikanum til „vetrarvistar“, hæfninni til að nema staðar, hvílast, hugsa sinn gang, hlaða batteríin og leyfa sárum að gróa. Árstíðaskipti geta kallað á vetrarvist en stundum eru það aðstæður sem krefjast vetrarvistar. Einstaklingur gæti upplifað vetrarvist er hann jafnar sig eftir veikindi, syrgir ástvin, tekst á við sambandsslit eða starfsörðugleika.

„Stundum er það ekki fyrr en við náum botni eymdarinnar að við skiljum sannleikann, rétt eins og við verðum að fara alla leið niður á botn brunnsins til að sjá stjörnur í dagsbirtu.“ Svo mælti tékkneska leikskáldið og stjórnmálamaðurinn Václav Havel.

Eilífur ljómi máir út hringrás náttúrunnar; dag og nótt; sumar, vetur, vor og haust. En ef við hlýðum ekki kalli myrkursins og brunum þess í stað á sumarstillingunni beint af augum, verðum við einn góðan veðurdag stödd á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla, búin að gleyma hvert förinni var heitið.