Einhvern tíma var sagt að það væri hollt að hafa áhyggjur. Þá héldu menn vöku sinni og gerðu sitt til að hafa áhrif á framvinduna. Ef það var á annað borð hægt. Það er óvíst að þetta sé djúp speki.

Það er ýmislegt sem vert er að hafa áhyggjur af og enn fleira sem menn hafa áhyggjur af en geta lítið gert við. Kóvið er auðvitað það sem hæst skorar á áhyggjulista flestra eins og mál standa. Það er margskrifað og margtuggið að þeir sem hefðu lýst þeim hamförum fyrir fram sem við nú erum að upplifa hefðu verið taldir geggjaðir. En það er fátt sem við sauðsvartur almúginn getum gert varðandi kóvið, annað en að gera eins og okkur er sagt og gegna.

Einhverjum finnst ekki taka því að hafa áhyggjur af málum nema maður hafi tök á að aðhafast eitthvað eða hafa áhrif á framvindu þeirra. Nóg sé af öðrum málum sem hægt sé að hafa áhyggjur af og hægt að láta til sín taka.

Í Fréttablaðinu undanfarið hafa birst fréttaskýringar um loftslagsmál og afleiðingar hirðuleysis okkar mannanna í umgengni við jörðina, þar sem við erum gestir um skamma hríð en bíum allt út og skiljum eftir okkur slóð af sora og eyðileggingu. Tómas orti um Hótel Jörð og lýsti líkindunum milli jarðarinnar og hótels. Það er vel lukkuð samlíking sem fleiri hafa gripið til.

En það er vert að hafa áhyggjur af loftslagsmálum. Það er vert að halda vöku sinni yfir þeim. Það er vert vegna þess að við getum gert eitthvað til að að sporna við. Við getum aðhafst.

Við þurfum að láta af dólgslegri hegðan í umgengni okkar við náttúru og jörð. Með því getum við sannarlega breytt og lagað. Með því getum við tryggt að þær raðir kynslóða sem á eftir okkur munu koma geti átt hér fagurt og innihaldsríkt líf. Stundum gleyma menn því að það koma fleiri hingað eftir að við erum farin.

Að hiti vaxi, að sjávarborð hækki og jöklar minnki er ekki gamanmál, þó að jafnvel sumir hendi að því gaman. En það er hægt að gera eitthvað í því.

Það eru ekki bara furðufuglar sem hafa af þessu áhyggjur, þetta er vert áhyggjuefni fyrir alla menn. Sjö milljarðar manna eiga undir því að við lögum til í umgengni okkar við jörðina.

Við þurfum að tryggja að komandi kynslóðir geti, eins og við, lagst í grænan mó og andað að sér fersku lofti og fundið ilminn af grasinu og hlustað á fuglana syngja og flugurnar suða. Stinga upp í sig sætu puntstrái eða súru.

Þessu öllu getum við breytt og lagfært. Það er ekki hlaupið að því en það er samt hægt.

Það er verðugt því börn okkar, barnabörn og komandi kynslóðir munu byggja þessa jörð. Og hún verður ekki í betra formi en við skiljum við hana.

Það má finna sér ýmis áhyggjuefni um þessar mundir, en sennilega er þetta það sem er mest áríðandi.

Þessu er hægt að breyta.