Að vera þingmaður þýðir að maður er með stöðugar áhyggjur. Að minnsta kosti er það myndin sem birtist manni í hvert einasta skipti sem umræða skapast um brotalamir.

Þingmenn og ráðherrar hafa á undanförnum árum haft áhyggjur af biðlistum, undirmönnun, innviðum, jaðarbyggðum, bankasölu, verðbólgu, skuldum ríkissjóðs og verðlagi.

Þeir lýsa þungum áhyggjum af orkuskorti, húsnæðisskorti og peningaskorti. Skorti á störfum, skorti á starfsfólki, skorti á úrræðum og skorti á samstarfi. Það eina sem enginn skortur virðist á eru áhyggjur.

Ég sjálfur hef aðallega áhyggjur af þingmönnum. Vel meinandi og vandað fólk allt saman, sem af einhverjum hálf spaugilegum ástæðum virðist sækja það fast, aftur og aftur, að fá að hafa allar þessar áhyggjur. Eins og það sé beinlínis eftirsóknarvert.

Eflaust væri manni hlátur í huga ef það væri ekki farinn að læðast að manni sá grunur að allar þessar áhyggjur séu farnar að hafa áhrif á afköst og getu ráðamanna til að leysa kerfislæg vandamál sem grassera í samfélaginu. Án sýnilegrar ástæðu. Í velmegunarsamfélagi.

Við erum farin að sætta okkur við eitthvert undarlegt mynstur endalausra tafa og úrræðaleysis. Ástand þar sem sömu kerfislægu vandamálin hanga yfir okkur árum saman án þess að nokkur minnsta tilraun sé gerð til að ráða á þeim bót. Samt eru allir mjög áhyggjufullir.

Ferill máls, sem ráðamenn hafa áhyggjur af, er nokkurn veginn svona:

  1. Vandamál grasserar. 2. Ráðherra lýsir yfir áhyggjum. 3. Ráðherra skipar nefnd. 4. Nefnd skilar niðurstöðu. 5. Ráðherra skipar aðra nefnd til að fara yfir niðurstöðuna. 6. Endurtakið skref númer eitt.

Engar úrbætur, bara nefndir. Engar umbætur, bara fundir. Ekkert þokast. Hvorki í heilbrigðiskerfinu né öðrum viðkvæmum kerfum. Vegna verkkvíða okkar æðstu þjóna.

Í fræðunum er talað um að langflestar manneskjur stundi það að fresta erfiðum verkefnum fram á síðustu stundu. Það er víst talið eðlilegt og mjög svo mannlegt. En þegar frestunin er farin að teygja sig yfir allt það sem inn á borðið ratar er ástandið orðið sjúklegt. Og það veldur enn meiri áhyggjum.

En svo getur líka vel verið að þau hafi ekkert svona miklar áhyggjur. Þetta er bara eitthvað sem þeim er tamt að segja til að komast hjá því að viðurkenna að þau geti ekki komið sér saman um hvernig heppilegast sé að leysa vandamálin.

Hvernig væri þá bara að segja það.