Um liðna helgi lék íslenska karlalandsliðið í handbolta við Frakka á Evrópumótinu í handbolta. Þetta fór fram hjá fæstum. Reyndar er ég í þeim fámenna hópi sem tók ekkert sérstaklega eftir þessu enda hef ég engan áhuga á íþróttum yfirhöfuð.Ég þurfti til dæmis að gúggla hvort þessi keppni var heimsmeistarakeppni eða Evrópukeppni.

Íþróttafréttir vekja mér álíka mikinn áhuga og veðurfréttir gerðu hér áður ef maður átti eitthvað beinlínis undir sæmilegu veðri. Íþróttafréttir eru eins og suð í eyrum mér, eins og veðurfréttirnar voru og ég hélt lengi vel að Austurlandaðglettingi væri veðurstöð.

Jæja. Laugardaginn sem þessi frækni leikur fór fram ákvað ég að þrífa almennilega heima hjá mér og tók til óspilltra málanna eins og dóttur húsmæðraskólagenginnar konu sæmir. Ég frétti því ekki af úrslitunum fyrr en síðar um daginn þegar ég, að loknu góðu dagsverki, settist niður með tebolla (ok, hvítvínsglas) og feisbúkk.

Augljóst var af gleðinni og geðshræringunni að ég hafði misst af einhverju stórmerkilegu og myndi tæpast bíða þess bætur. Gleðin var einlæg og djúp – (næstum) allir áttu glaðan dag yfir góðu gengi liðsins unga. Dásamlegt.

Mér leið auðvitað eins og þjóðníðingi að hafa ekki fylgst með, svolítið eins og um árið þegar ég ákvað að vinna frekar tvöfalda vakt en að fara á Þingvelli á 50 ára lýðveldis­afmælinu.

Djúpsálfræðingar hljóta að skilja að ég leita í öryggið. Sigrar og hátíðir eru hverful – næsti leikur tapaðist og fólk sat víst fast í bílaröð allan daginn á Þingvöllum. En heimilisþrifin og vinnan eru eins og þvottafjallið í þvottakörfunni – hverfur manni aldrei