Á Íslandi hafa ýmsir stjórnmálamenn verið að velta vöngum yfir að virkja sem mest og flytja rafmagn í stórum stíl um neðansjávarkapal til Evrópu. En er þetta raunhæft?

Í dag er framleitt rafmagn sem hefur nægt okkur og að auki fimm sinnum meira sem fer í stóriðju. Miðað við rafmagnsframleiðsluna eins og hún er í dag þá myndi hún nægja kannski hálfri annarri milljón manns.

En það hafa komið fram stórtækari hugmyndir í þessa átt. Litið hefur verið til vindorkunnar, sólarorkunnar og kjarnorka er töluvert notuð til framleiðslu rafmagns einkum Frakklandi og Bretlandi. Þar sem framleitt er mörg hundruð sinnum meira en á Íslandi.

Kjarnorkan getur verið varhugaverð einkum í heimi þar sem stjórnmálamenn sem eru ekki með öllum mjalla geta á svipstundu gjöreyðilagt land og gert það óbyggilegt um ófyrirsjáanlega framtíð. Því hefur verið hugað meir að sólarorkunni sem enn er fremur lítt notuð.

Suður í Þýskalandi tók ungur fræðimaður við Tækniháskólann í Braunschweig, Nadine May að nafni saman fyrir 17 árum mjög áhugaverða rannsóknaskýrslu. Þar er leitað svara við þeirri áhugaverðu spurningu:

Hvað skyldi þurfa mikið land undir sólarorkuver til að sjá allri heimsbyggðinni fyrir raforku?

Hér er um að ræða Diplómanámsritgerð eftir Nadine May og nefnist:

Umhverfisjafnvægi sólarorku

Flutningur frá Norður-Afríku til Evrópu (Eco-balance of a Solar Electricity Transmission from North Africa to Europe) First Referee: Prof. Dr. Wolfgang Durner Second Referee: Prof. Dr. Otto Richter Braunschweig, 17th August 2005

Höfundurinn hefur vakið mikla athygli í heimalandi sínu og er frábært dæmi um hve ungt fólk hefur oft reynst hugmyndaríkt og komið með góðar hugmyndir.

Niðurstaða Nadine May er þessi:

  1. Fyrir Þýskaland með eftirspurn 500 Twstundir á ári þarf svæði 45 km x 45 km. Það er einungis um 0.03% alls landssvæðis í Norður-Afríku (BMU, 2004b).
  2. Magn raforku sem ESB-25 ríkin þarfnast, mætti framleiða á 110 km x 110 km svæði.
  3. Til að mæta öllum heildarraforkuþörfum heimsins þarf svæði 254 km x 254 km sem ætti að vera væri nóg.

Sjálfsagt þykir flestum þessar vangaveltur vera skýjaborgir en neyðin kennir naktri konu að spinna segir orðatiltækið. Engan óraði fyrir því um aldamotin 1900 að mannfólkið myndi geta flogið sem fuglarnir, nú þykir ekkert sjálfsagðara. Tæknilega ætti þetta gríðarstóra verkefni að vera vel framkvæmanlegt en líklega eru miklir örðugleikar við að koma á góðu stjórnarfari í löndum Norður-Afríku sem er nægjanlega stöðugt, byggt á mannréttindum og lýðræði.

Höfundur er leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ