Síðast­liðið vor, skömmu eftir að sam­komu­bann var sett á, óskaði um­boðs­maður barna, í sam­starfi við KrakkaR­úv, eftir frá­sögnum barna og ung­menna af því hvernig það er að vera barn á tímum kóróna­veirunnar og hvernig far­aldurinn hefur haft á­hrif á dag­legt líf þeirra. Erindið var sent til allra grunn­skóla og barst fjöldi frá­sagna frá börnum á öllum aldri víðs vegar að af landinu. Ekki voru gerðar sér­stakar kröfur um form frá­sagna. Mest var af skrif­legum frá­sögnum en einnig voru sendar inn myndir, dag­bókar­færslur og ljóð. Þá var nokkuð sent af mynd­skeiðum með frá­sögnum, við­tölum og leiknu efni.

Á vef um­boðs­manns barna hafa nú verið birt sýnis­horn af þessum frá­sögnum og er um­fjöllun barnanna flokkuð eftir þeim þemum sem voru hvað al­gengust, er það gert í þeim til­gangi að gefa yfir­sýn yfir frá­sagnir barnanna.

Af svörum barnanna má merkja að kóróna­veiran hafi haft um­fangs­mikil á­hrif á dag­legt líf þeirra. Þau fjölluðu um á­hrif breytinga á skóla­starfið, en skiptar skoðanir komu fram um aukið heima­nám og fjar­kennslu. Börnin fjölluðu um á­hrif sam­komu­bannsins á tóm­stundir þar á meðal fjar­kennslu í í­þróttum, tón­list og skák. Þá fannst þeim erfitt að geta ekki leikið við vini sína eins og venju­lega eða heim­sótt afa og ömmu. Börnin ræddu ekki einungis nei­kvæð á­hrif kóróna­veirunnar heldur sáu mörg þeirra já­kvæðar hliðar á þeim breytingum sem höfðu orðið vegna hennar. Þannig væru sam­veru­stundir fjöl­skyldunnar fleiri og þá hefðu þau lært mikið á þessum tíma, til dæmis hvað vin­átta skiptir miklu máli, hvað það er mikil­vægt að gera gott úr hlutunum, hugsa já­kvætt og finna sér eitt­hvað að gera.

Frá­sagnir barnanna bregða upp mikil­vægri svip­mynd af að­stæðum barna síðast­liðið vor, en þær eru ekki síður mikil­vægar núna þegar við stöndum öðru sinni frammi fyrir hertum sótt­varna­að­gerðum.