Eldgosahrinan sem hafin er á Reykjanesskaga er bæði lítil áminning og stór. Hún er lítil að því leyti að jarðeldarnir hafa til þessa logað á einstaklega heppilegu svæði, svo mjög raunar að hægt er að kalla þá þægilegt ferðamannagos í göngufæri frá þjóðleiðinni um suðurströnd.

En hún er stór í öðru tilliti, einkum og sér í lagi hvað varðar innviði landsins, flugvelli, þjóðvegi og raflínur, enda bendir endurtekin eldvirkni til þess að nýtt og langvarandi gostímabil sé hafið á suðvesturhorni landsins þar sem mestur hluti landsmanna býr og meginhluta opinberrar þjónustu er að finna.

Enda þótt engin ástæða sé til að fara á taugum á meðan jarðeldarnir eru staðbundnir og geta vart eða ekki valdið skaða á mannvirkjum, hvað þá að fólki standi hætta af þeim, er full ástæða til að endurmeta framtíðarskipulagið á fjölmennasta byggðasvæði Íslands.

Ef til vill er of mikið sagt að þar hafi orðið forsendubrestur, en breytingin er augljós og áhrifin af henni munu að öllum líkindum vara lengi.

Flugið er hvað viðkvæmast fyrir þessum breytingum, enda eru tveir helstu flugvellir landsins á áhrifasvæði þessara eldsumbrota, en þau geta, samkvæmt rannsóknum vísindamanna, teygt sig allt frá hafsvæðinu vestan Reykjanestáar og austur fyrir Bláfjöll, á milli fimm virkra belta, sem nú eru vöknuð af átta hundruð ára dvala.

Af sjálfu leiðir að hugmyndir yfirvalda um uppbyggingu innanlandsflugs í Hvassa­hrauni eru í besta falli í uppnámi. Fyrir vikið er Reykjavíkurflugvöllur líklega að festa sig áfram í sessi, enda virðist ekki hægt að setja niður nýjan völl fyrir norðan borgina af veðurfarslegum ástæðum.

En sömuleiðis verður að horfa til þess hvort miðstöð millilandaflugs á Miðnesheiði eigi bjarta framtíð fyrir sér á svæði sem verður líklega virkasta eldfjallasvæði landsins á næstu árum og áratugum.

Það yrði reiðarslag fyrir íslenskan efnahag ef alþjóðaflugið um Keflavíkurflugvöll myndi stöðvast um tíma, hvað þá til langframa. Meira og minna öll uppbygging ferðaþjónustunnar á síðustu árum hefur beinst að suðvesturhorninu – og þar af leiðandi geta varaflugvellirnir á Akureyri og á Egilsstöðum ekki tekið við þeirri umferð nema að litlum hluta.

Allt að öllu eru Íslendingar nú áminntir um afleiðingar þess að byggja upp alla meginþjónustu landsins á einu horni landsins sem safna þar saman svo til allri þjóðinni.