Afleiðingar þess að COVID-19 faraldurinn hefur náð að breiðast út um allan heim eru misjafnar eftir löndum og innan samfélaga. Faraldurinn hefur augljóslega margar neikvæðar birtingarmyndir en um leið hefur hann virkjað einstaklinga, grasrótarsamtök, fyrirtæki og stjórnvöld til uppbyggilegra aðgerða. Stjórnvöld víða um heim nýta nú tækifærið til þess að efla rannsóknir, nýsköpun og auka á fjárfestingar í grænum lausnum.

Í þessari viku er alþjóðlegur dagur friðar. Það kallar á umfjöllun og umræðu um frið. Í núverandi ástandi er afar mikilvægt að halda áfram að efla rannsóknastarf og nýsköpun og stuðla að upplýstri umræðu, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi. Árið 2016 tóku Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands höndum saman og stofnuðu vettvang sem ætlað er að sinna rannsóknum og fræðslu á sviði friðar- og átakafræða.

Á þeim fjórum árum sem síðan eru liðin hefur Höfði friðarsetur byggt upp öfluga starfsemi sem nær til afvopnunarmála, samningatækni og úrlausnar ágreinings, gildis nýsköpunar fyrir friðaruppbyggingu, rannsókna á tengslum fólksflutninga við frið og átök og greiningar á áhrifum og umfangi falsfrétta og upplýsingafölsunar í samfélagslegri umræðu. Rannsóknaráherslur setursins eru fjölbreyttar en grundvallast engu að síður á áherslu á ólíka gerendur og áhrif þeirra á sjálfbæran frið.

Gerendur utan og innan ríkja eru fjölbreyttur hópur og má þar m.a. telja frjáls félagasamtök, fyrirtæki, borgir og fjölmiðla. Þessir gerendur geta bæði stutt við frið og spillt honum. Á tímum sem þessum er afar mikilvægt að horfa til ólíkra hópa í samfélaginu þegar kemur að því að meta friðarhorfur næstu missera. Áhrifa- og óvissuþættirnir hafa því sjaldan verið jafn margir og nú.

Októbermánuður hefur undanfarin ár verið helgaður umræðu um frið og hefur Höfði friðarsetur staðið fyrir alþjóðlegri ráðstefnu 10. október ár hvert þar sem sjónum er beint að hlutverki almennra borgara og ólíkra hópa samfélagsins við að stuðla að eða grafa undan sjálfbærum friði.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á kynjaðar afleiðingar átaka og mikilvægi aðkomu kvenna, ungs fólks og minnihlutahópa að friðaruppbyggingu. Vegna aðstæðna í ár verður ekki haldin opin ráðstefna, en í staðinn verður boðið upp á vikulanga rafræna dagskrá á vefsíðu Höfða friðarseturs, fridarsetur.is. Við hvetjum almenning til virkrar þátttöku í mikilvægri umræðu um hvernig við sem samfélag getum lagt okkar af mörkum í þágu friðar.

Höfundar eru borgarstjóri Reykjavíkur og rektor Háskóla Íslands