jölmiðlar eru stundum nefndir fjórða valdið vegna aðhaldsins sem þeir veita. Fjölmiðlar sem telja sig hafa hlutverki að gegna í þessu sambandi álíta það skyldu sína að fjalla um beitingu ríkisvaldsins og ráðstöfun almannafjár.

Einn lykilþáttur við að rækja þessa skyldu er greiður aðgangur að upplýsingum. Settar hafa verið lagareglur sem beinlínis er ætlað að greiða fjölmiðlum aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum og öðrum opinberum aðilum í þessu skyni og á hátíðisdögum tala ráðamenn um mikilvægi þess að þessi aðgangur sé sem greiðastur.

Þrátt fyrir þetta reka fjölmiðlamenn sig oft á magnaða tregðu þessara aðila við að veita aðgang að upplýsingum sem telja má sjálfsagðan, sé höfð hliðsjón af lagareglum.

Fjölmörg dæmi má nefna um að mál, sem fjallað var um í fjölmiðlum á grundvelli upplýsinga sem aflað var í krafti upplýsingalaga, hafi ratað í bættan farveg.

Í vikunni fjallaði Fréttablaðið til dæmis um kaup Ríkisútvarpsins á efni af sjálfstæðum framleiðendum, en stofnunin hefur skuldbundið sig til að halda þeim kaupum í tilteknu hlutfalli af heildartekjum. Blaðið hafði upplýsingar um að farið hefði verið á svig við þetta viðmið, en stofnunin synjaði um aðgang að gögnum. Það var fyrst eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði fjallað um upplýsingabeiðnina að stofnunin lét gögnin af hendi og kom þá í ljós að upplýsingar blaðsins reyndust réttar.

Annað dæmi og nýlegt af síðum Fréttablaðsins er að atbeina dómstóla þurfti til svo samningur um námsstyrk starfsmanns Seðlabankans fengist afhentur.

Allt bendir þetta til að stjórnsýslan treysti ekki fjölmiðlum til að meðhöndla upplýsingar og jafnvel telur að þær komi fjölmiðlum og almenningi ekki við, þó að sýslað sé með almannafé.

Á ritstjórnum ritstýrðra fjölmiðla fer fram mat á hverjum einasta degi á hvort og hvaða upplýsingar eigi að birta. Hvort tiltekið mál sé frétt eða ekki. Hvort nafngreina eigi aðila máls, eða birta af þeim mynd.

Og á hverjum tíma búa starfsmenn á þessum ritstjórnum yfir upplýsingum sem sumar hverjar eru viðkvæmar og sæta þessu sama mati. Blaðamaður sem setur nafn sitt við frétt er persónulega ábyrgur fyrir efninu og framsetningu þess og getur sætt refsiábyrgð hafi illa tekist til við mat á hvort segja eigi frétt eða ekki. Auðvitað er fjöldi viðkvæmra persónuupplýsinga meðal gagna hjá opinberum aðilum – en það eru úrræði til að bregðast við því, svo sem að afmá þann hluta.

Eins og greint er frá í blaðinu í dag liggur nú fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á upplýsingalögum. Í því er það nýmæli að leita þurfi álits þeirra sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, áður en aðgangur að upplýsingum er veittur.

Þannig væri skylt að leita sjónarmiða fyrirtækja sem nýtt hafa hlutabótaleið um að það sé upplýst. Þá er einnig gert ráð fyrir að fyrirtækið geti leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og eftir atvikum borið þann úrskurð undir dómstóla.

Þessar hugmyndir eru ekki fallnar til þess að styrkja aðhaldshlutverk fjölmiðla. Þvert á móti.