Þríeykið geðþekka hefur ítrekað sagt að sóttvarnaaðgerðir eigi ekki að vera harðari en nauðsynlegt sé. Það ber vissulega vott um ábyrgðarfulla afstöðu. Hins vegar getur þríeykið ekki falið sig á bak við þessi orð heldur þarf að rökstyðja af festu að ekki sé hverju sinni gengið lengra en þarf.

Lítið hefur þó farið fyrir spurningum fjölmiðla um frelsisskerðingu og höft sem aðgerðirnar hafa leitt af sér. Fjölmiðlafólk hefur fremur kosið að varpa fram í tíma og ótíma spurningunni: „Á ekki að herða aðgerðir?“

Fjölmargir eiga mikið undir því hvernig sóttvarnaaðgerðum er háttað. Fólk er að missa atvinnu sína og fyrirtæki og einstaklingar horfa fram á gjaldþrot. Almenningur býr við alls kyns takmarkanir og höft. Allir þekkja síðan einstaklinga sem þjást andlega því þeir lifa í hræðslu og finna um leið mjög fyrir einangrun. Það er eins og slokknað hafi á þeim.

Sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn geta ekki horft fram hjá því að aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa valdið margvíslegum skaða. Þau verða að þola gagnrýni og ættu reyndar að taka henni vel en hlaupa ekki sjálfkrafa í vörn. Þau ættu einmitt að spyrja sig hvort það geti verið að aðgerðir séu of harkalegar og vera opin fyrir sjónarmiðum sem falla ekki alls kostar að þeirra eigin skoðunum. Þríeykið er ekki heilagt og óskeikult og svo sannarlega er ríkisstjórnin það ekki heldur.

Yfirvöld hljóta að vita af virtum sérfræðingum og læknum víða um heim sem vara við hörðum aðgerðum og segja að lækningin sé orðin verri en sjúkdómurinn. Skoðanir þessa hóps eiga ekki greiða leið að fjölmiðlum og sá sem vekur athygli á þeim í skoðanagrein og tekur undir þær er umsvifalaust stimplaður sem trumpisti og gefið er í skyn eða sagt beinum orðum að hann vilji bara að fólk deyi. Enginn vill að fólk deyi, enginn vill heldur að fjöldaatvinnuleysi skapist, fólk verði gjaldþrota eða þurfi að lifa við stöðugan ótta. Það er engin ástæða til að fullkominn einhugur sé um aðgerðir við COVID. Rökræður verða að fara fram og ólík sjónarmið eiga að heyrast.

COVID mun blessunarlega ekki endast að eilífu en um leið og þeim ósköpum linnir þá verður farið ofan í saumana á aðgerðum sem gripið var til. Forsætisráðherra hefur oft bent á að aðgerðir hér á landi séu mildari en víðast hvar annars staðar. Rétt er það að miðað við aðgerðir víða um heim eru höftin hér á landi í vægari kantinum. Um leið ber á það að líta að hörðustu aðgerðir erlendis, eins og þær að loka börn inni vikum saman, eru ómanneskjulegar og grimmdarlegar. Seinni tímar munu dæma þær hart.

Ljóst er að aðgerðir hér á landi við COVID bitna mjög illa á fjölmörgum. Á sama tíma eru nær engar umræður á þingi um þær. Sjálfsagt ætti að vera að þingmenn standi í lappirnar í umræðu um COVID-aðgerðir. Því miður gera þeir það fæstir. Sumir samt, enda er nú svo komið að ástæða er til að þakka almættinu fyrir tilvist Sigríðar Á. Andersen.