Stóru tíðindin í skoðanakönnun Prósents um stuðning við aðild að ESB, sem Fréttablaðið birti í vikunni, eru þau að 55 prósent þeirra sem afstöðu tóku eru fylgjandi aðild.

Allar skoðanakannanir síðasta árið um afstöðu þjóðarinnar til aðildar að ESB sýna svo ekki verður um villst að meirihlutinn vill fulla aðild þannig að hér er síður en svo um fráviksniðurstöðu að ræða. Meirihlutinn vill inn!

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Þróun alþjóðamála á undanförnum árum er áhyggjuefni. Einangrunarhyggja færist í vöxt í Bandaríkjunum og í tíð Trumps, fyrrverandi forseta, munaði hársbreidd að þetta forysturíki á Vesturlöndum drægi sig út úr varnarsamstarfi vestrænna ríkja.

Margt bendir til að þess verði skammt að bíða að einhver skoðanabróðir Trumps komist til valda í Hvíta húsinu, þótt úrslit þingkosninganna vestra fyrr í þessum mánuði hafi orðið áfall fyrir Trump sjálfan og ólíklegt sé að hann eigi endurkomu auðið í forsetastól.

Eitt hlutverk ESB er að vera varnarbandalag aðildarþjóðanna. Sést þetta best af því að 42. grein Lissabon-sáttmála ESB er sambærileg við 5. grein NATO-sáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll.

Í ljósi yfirgengilegrar landvinningastefnu Rússlands hafa helstu ESB-ríkin nú ákveðið að stórauka framlög sín til varnarmála. Kemur þar einnig til að nokkuð ljóst er að í framtíðinni getur Evrópa ekki reitt sig á Bandaríkin í varnarmálum með sama hætti og verið hefur frá því í seinni heimsstyrjöldinni.

Þetta eru sterk rök fyrir fullri aðild Íslands að ESB. Við þetta bætist að með aðild að ESB og upptöku evru myndum við losna undan þeim beina og óbeina kostnaði sem fylgir því að vera með minnsta gjaldmiðil í heimi. Kostnaðurinn hagkerfisins vegna krónunnar – krónuskatturinn – var fyrir tæpum tíu árum metinn um 200 milljarðar á ári. Varlega áætlað er krónuskatturinn nú 300 milljarðar á ári.

Mætti ekki gera eitthvað fyrir heilbrigðiskerfið, öryrkja og aldraða fyrir þá upphæð á hverju ári?