Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fullyrti frammi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í vikunni að verðbólga hér á landi væri miklu hærri ef við værum með evru sem gjaldmiðil þjóðarinnar.

Ekki færði hann haldbær rök fyrir staðhæfingunni enda eru þau ekki til. Þarna virðist seðlabankastjóri hafa hlaupið á sig, ekki í fyrsta sinn.

Mörgum er í fersku minni þegar yfirmaður peningamála í landinu tók upp á því í aðdraganda alþingiskosninganna haustið 2021 að gagnrýna sérstaklega stefnu Viðreisnar í gjaldmiðilsmálum, en Viðreisn hafði lagt til að tengja gengi krónunnar við evru.

Ásgeir fann þessari stefnu allt til foráttu og notaði þá sem rök að ekki hefði fastgengisstefnan gefist vel hér á landi fyrir um 20 árum. Nei, fastgengisstefnan gafst ekki vel, enda var Viðreisn ekki að boða endurtekningu þeirrar tilraunar.

Tillögur Viðreisnar fyrir kosningarnar 2021 gengu út á að tengja krónuna evru í samstarfi við Evrópska seðlabankann en ekki leggjast á bæn og vona að guð og góðir vættir aðstoðuðu okkur við að halda gengi krónunnar stöðugu.

Annað hvort kynnti Ásgeir Jónsson sér ekki hugmyndir Viðreisnar áður en hann tók til við að gagnrýna þær eða hann talaði gegn betri vitund. Ekki má á milli sjá hvort er verra, þegar um er að ræða seðlabankastjóra sem fer að skipta sér af flokkapólitík korter í kosningar, sem vitaskuld er ekki hans hlutverk.

Með evru sem gjaldmiðil væru núverandi lausatök í ríkisfjármálum ekki í boði.

En aftur að hinni furðulegu staðhæfingu Ásgeirs á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í vikunni. Veit hann virkilega ekki betur, eða talaði hann gegn betri vitund?

Með evru sem gjaldmiðil væru núverandi lausatök í ríkisfjármálum ekki í boði. Það er krónan sem gerir ríkisstjórninni kleift að stunda linnulausan hallarekstur á ríkissjóði ár eftir ár.

Á síðasta vaxtaákvörðunardegi kvartaði seðlabankastjóri sárt undan því að Seðlabankinn væri eini aðilinn sem stæði í slagnum við verðbólgu hér á landi. Nefndi hann sérstaklega lausung í fjármálastjórn ríkisins sem sökudólg.

En krónan kallar ekki aðeins yfir okkur agaleysi í ríkisrekstrinum, sem aftur er verðbólguskapandi. Krónan stóreykur einnig viðskiptakostnað allra þeirra sem flytja vörur til og frá landinu. Mikill kostnaður fylgir því að þurfa ávallt að skipta krónunni í alvöru gjaldmiðil til að kaupa innflutningsvörur á borð við eldsneyti, matvæli, bíla og annað sem við getum ekki verið án. Ekki er kostnaðurinn minni hjá þeim aðilum sem selja framleiðslu sína til útlanda og þurfa svo að skipta gjaldeyri í íslenskar krónur til að geta borgað laun, innlend aðföng og skatta hér á landi.

Heildarkostnaðurinn fyrir þjóðarbúið vegna íslensku krónunnar er um 300 milljarðar á ári hverju. Sumt af þessu fer í vasa fjárfesta og fjármálafyrirtækja en gríðarlega stór hluti er ekkert annað en kostnaðarauki sem kemur fram í verðlagi hér. Sem sagt verðbólguvaldur!

Seðlabankastjóri á að vita betur en að fara með fleipur af því tagi sem hann gerði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í vikunni.