Það er heiðar­legt af mönnum að biðjast af­sökunar verði þeim á. Slík af­sökunar­beiðni þarf þó að vera ein­læg, eigi að vera hægt að taka mark á henni. Af­sökunar­beiðni sem Sam­herji sendi frá sér á dögunum var ekki á þann veg. Þar var enn á ný mjálmað um að um­fjöllun fjöl­miðla um fyrir­tækið hefði verið „ein­hliða, ó­sann­gjörn og ekki alltaf byggð á stað­reyndum“. Með semingi baðst Sam­herji þó af­sökunar á fram­göngu sinni, en tókst að gera það þannig að engrar iðrunar var vart í yfir­lýsingunni. Samt segir Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, að hún hafi fallið í góðan jarð­veg. Hann hlýtur að eiga við að innan­húss hafi hún þótt vel lukkuð. Svo að segja engum öðrum finnst það.

Ef for­svars­menn Sam­herja væru fullir iðrunar vegna fram­göngu sinnar gegn fjöl­miðlum og fjöl­miðla­fólki, hefðu þeir á­kveðið að snúa snar­lega við blaðinu og svara ó­hikað öllum þeim mjög svo al­var­legu á­sökunum um lög­brot sem bornar hafa verið á fyrir­tækið. Einnig hefðu þeir sam­stundis kastað skæru­liða­deildinni á dyr og sent frá sér yfir­lýsingu um að alls ó­mögu­legt væri að leggja blessun sína yfir gjörðir sem væru ó­líðandi. Í staðinn hafa for­svars­menn fyrir­tækisins á­kveðið að halda í vinnu fólki sem hefur njósnað blygðunar­laust um ein­stak­linga og reynt með öllum ráðum að hafa af þeim æruna og hræða þá um leið. Þessi vinna skæru­liða­deildarinnar hefur átt sinn þátt í að eyði­leggja orð­spor Sam­herja, sem var reyndar stór­skaddað fyrir. Skæru­liða­deildin sjálf hefur síðan kallað yfir sig ævarandi skömm með störfum sínum.

Á nokkurn veginn sama tíma og Sam­herji sagði „af­sakið“ án þess að meina það, var opin­berað að lög­maður Sam­herja hefði sent bréf til mennta­mála­ráð­herra, Lilju Al­freðs­dóttur. Þar var þess krafist að hún út­skýrði í smá­at­riðum hvað hún hefði átt við þegar hún sagði á Al­þingi að fyrir­tækið hefði gengið of langt í við­brögðum sínum við frétta­flutningi í Namibíu­málinu. Þessi bréfa­sending er ó­trú­lega ó­skamm­feilin. Hrokinn opin­beraðist síðan frekar í því að mennta­mála­ráð­herra var gefin vika til að svara bréfinu. Ekki er ljóst hvers vegna Sam­herji telur sig hafa sér­staka lög­sögu yfir mennta­mála­ráð­herra. Ætli þar sé ekki bara krónísk frekja og yfir­gangs­semi á ferð?

Hinn mæti stjórn­mála­fræði­prófessor Ólafur Þ. Harðar­son sagði á dögunum „að fram­ganga Sam­herja hafi aukið veru­lega líkurnar á því að sjávar­út­vegs­málin verði eitt af helstu kosninga­málunum í haust“. Þetta eru heldur vondar fréttir fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn, en þar á bæ hefur lítið borið á gagn­rýni á fram­göngu Sam­herja, miklu frekar er eins og menn leggi sig fram um að af­saka hana eða fara þægi­legu leiðina og leiða hana hjá sér.

Það hlýtur að vera skylda stjórn­mála­flokka að setja sjávar­út­vegs­málin á dag­skrá í kosninga­bar­áttunni. Um leið verður ekki hjá því komist að taka sið­ferði­lega af­stöðu til for­kastan­legrar fram­göngu Sam­herja, en ekki þegja hana í hel. Nokkrir flokkar eru lík­legri en aðrir til að setja þessi mál á dag­skrá, enda eru þau mikil­væg, því þau snúast um það í hvernig sam­fé­lagi við viljum lifa.