Skoðun

Aðför að mennskunni

Fyrir tveimur árum síðan sat ég í reykfylltu bakherbergi. Eða í raun dimmum Stúdentakjallara en hitt hljómar betur fyrir söguna. Á sviðinu sat fólk frá báðum fylkingum stúdentapólitíkur, tilbúin að færa rök fyrir sínum málstað. Ein af þeim var Eydís Blöndal og hún ræddi meðal annars um af hverju konur væru ekki líka menn. Af hverju við ættum að ávarpa hópa sem „þau” eða „öll” en ekki „þeir” eða „allir”. Í fyrstu hugsaði ég með mér að þetta gerði lítið úr konum, konur væru jú líka menn og af hverju ættum við að aðgreina okkur frá mannkyninu. En í dag, eftir að hafa kynnt mér rannsóknir og aðra fleti, átta ég mig á því að það var kannski grunn hugsun hjá mér.

Forseti stúdenta

Áður en ég held áfram: engar áhyggjur, Ísland. Unga konan í forystu Stúdentaráðs veit hvað orðið „maður” merkir og að það vísar ekki alltaf til karlmanna. Ég veit líka hvað málvitund er og að málvitund einhverra er ekki þannig að „formaður” vísi einungis til karlmanna en ég veit líka að málvitund allra er ekki eins. Sömuleiðis veit ég að „maður” í tengslum við dauða hluti tengist ekki karlmönnum, eins og til dæmis í setningunni „þetta er fimm manna bíll”, en þessir sömu aðilar tengja karlmenn frekar við ákveðin starfsheiti sem tengjast persónum, meðvitað eða ómeðvitað, sem gerir heitin í þeim tilfellum kynjuð. Stúdentaráð telur að ekki eigi að líta framhjá þeirri upplifun og ákvað að bregðast við því. Jafnframt veit ég líka að nýr titill minn, forseti, tekur með sér karlkyns beygingu. Ég sé vankantana á því og við viðurkenndum þá í yfirlýsingu okkar. 

Engar áhyggjur

Í síðustu viku samþykkti Stúdentaráð einróma uppfærða starfstitla í lögum ráðsins. Var þetta gert með það í huga að draga úr kynjaðri orðræðu, en með kynjaðri orðræðu er átt við orðræðu sem vísar í eitt kyn umfram önnur. Tilgangur þess að draga úr kynjaðri orðræðu er að gera hagsmunabaráttuna, sem við í Stúdentaráði sinnum daglega, aðgengilegri fyrir öll kyn. Tungumálið skiptir máli og við í Stúdentaráði teljum mikilvægt að allir geti tengt við það. Með þessu erum við einungis að ákvarða hvaða starfsvettvang við viljum skapa hjá okkur og hvaða orðræðu við viljum hafa. Það er einhugur hjá ráðinu að ég beri titilinn „forseti” og að Stúdentaráðsliðar séu „aðalfulltrúar”. Með þessu erum við með engu móti að „afsala” konum mennskunni, eða aðgreina eitt kyn frá öðru. Þvert á móti erum við að sameina öll kyn undir einn titil, sem hefur sýnt sig að flestir geti speglað sig í. Breytingarnar eru sömuleiðis í takt við titla innan háskólans, en forystufólk innan skólans bera titla á borð við „deildarforseti” og „sviðsforseti”.    

Áhyggjur mannsins

Nokkrar titlabreytingar hafa vakið upp meiri gagnrýni en aðrar, þá sérstakega orðin „-aðili” og „-meðlimur”. Vissulega er hægt að finna betri orð í stað þeirra, til dæmis „erindreki” í stað „flutningsaðili” og við munum ræða það betur innan ráðsins. Mikilvægt er þó að hafa í huga að við í Stúdentaráði höfum einungis vald yfir hvernig starfsvettvang við viljum skapa fyrir okkur, og þetta er hann. Málvitund okkar í Stúdentaráði segir okkur að titillinn „formaður” hafi karllæga merkingu og við viljum hafa titil sem allir geta speglað sig í. Sömuleiðis viljum við vekja upp umræðu, sem hefur svo sannarlega tekist. 

Sumir hafa áhyggjur af því að við höfum ekkert að gera og ráðumst því af þeim ástæðum í þessar breytingar, eða að við það að breyta þessum starfstitlum með einfaldri lagabreytingu látum við önnur mikilvægari hagsmunamál sitja á hakanum. Svo er nú ekki, engar áhyggjur, þessi breyting var á fundardagskrá ásamt þrettán öðrum málefnum. Við störfum alla daga við hagsmunamál stúdenta og ekkert mál situr á hakanum. Ekki heldur þetta. 

Þar með sagt þá er ekki tilgangurinn að útrýma orðinu „maður“, enda er það afar mikilvægt orð í íslenskunni. Það þarf þó að grunnskoða þann möguleika að leggja niður kynlæga titla og starfsheiti, sérstaklega í valdastöðum, og þannig taka stórt skref í átt að jafnara samfélagi. 

Elísabet Brynjarsdóttir
forseti Stúdentaráðs

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

„Ég er nóg“
Óttar Guðmundsson

Skoðun

Þriggja metra skítaskán
Sif Sigmarsdóttir

Skoðun

Lýst er eftir leiðtoga
Kristín Þorsteinsdóttir

Auglýsing

Nýjast

Er um­ræðan um klukku­stillingu á villi­götum?
Gunnlaugur Björnsson

Nóg hvað?
Þórarinn Þórarinsson

Tilgang lífsins er að finna í þessum pistli
Þórlindur Kjartansson

Eina leiðin
Hörður Ægisson

Á skíði fyrir sumarbyrjun
Katrín Atladóttir

Fjölgun hjúkrunar­fræði­nema við HA
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir

Auglýsing