Mér hefur tekist með Guðs hjálp og góðra manna að halda mig frá á­fengi í saman­lagt 26 ár. Drykkjan varð snemma vanda­mál en mér tókst lengi að halda henni leyndri og rétt­læta hana gagn­vart um­hverfinu. Ég hafði alltaf ein­hverjar skyn­sam­legar skýringar á reiðum höndum. Þetta kallast af­neitun á máli hegðunar­fræðinga, sem getur verið margs konar. Margir benda á ein­hvern annan sem sé verri. Aðrir gera lítið úr vanda­málinu og segja að allt sé þetta á mis­skilningi byggt Bæði ein­staklingar og opin­berir aðilar beita grímu­lausri af­neitun þegar til­veru þeirra er ógnað. Sovét­ríkin gömlu af­neituðu Tsjernó­byl­­slysinu í nokkrar vikur þótt heimurinn fylgdist ótta­sleginn með vaxandi geisla­virkni á svæðinu.

Á dögunum fann ég fyrir ýmsum líkam­legum ein­kennum sem hræddu mig. Ég greip þá til gamalla varnar­hátta og fór í af­neitun. „Það er ekkert að mér! Ég þarf engin lyf!“ Þetta dugði í ein­hvern tíma en að lokum endaði ég inni á Land­spítala.

Ég bjóst við því að leggjast inn á yfir­fulla deild þar sem læknar og hjúkrunar­fræðingar væru við dauðans dyr vegna þreytu. Svo reyndist ekki vera. Hressir og út­hvíldir læknar tóku á móti mér. Starfs­fólkið allt var yndis­legt og ég varð ekki var við hið meinta neyðar­á­stand. Eftir marg­vís­legar rann­sóknir og að­gerð var ég sendur heim með lyf sem ég lofaði að taka sam­visku­sam­lega.

Stundum er sagt að bana­mein margra sjúk­linga sé af­neitun.

Ég taldi mig fanta­góðan að greina og sjá í gegnum af­neitun sjúk­linga minna. Samt var ég sjálfur næstum dauður úr sjálfs­blekkingu. Enn og aftur sannar sr. Hall­grímur gildi sitt: „Þetta, sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.“