Raunveruleikinn er þannig að stundum þarf að flýja hann og leita sér skjóls á skemmtilegri stöðum. Þetta á við á öllum tímum og ekki síst nú á COVID-tímum þegar ríkisstjórnir heims setja alls kyns höft á þegna sína, rökstyðja þær ákvarðanir sínar illa eða alls ekki en ætlast um leið til að allir þegi og hlýði. Og það er einmitt það sem fólk gerir, það þegir og hlýðir vegna þess að búið er að hræða það. Þetta á við hér á landi eins og annars staðar.
Ekki skal fjallað meir um þetta að sinni en ríkur tími hlýtur að gefast til þess síðar. Víkjum raunveruleikanum til hliðar um stund og horfum til töfranna. Í dag er einmitt dagurinn til þess því ein þekktasta persóna bókmenntasögunnar, Harry Potter, fagnar stórafmæli í dag. Töfradrengurinn er orðinn fertugur.
Eitt af því stórkostlegasta í þessu lífi er að geta lifað sig inn í tónlist, myndlist, bækur og alls kyns listir. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni sem fylgir þessari sterku innlifun og sennilega er engin ástæða til að reyna að skilgreina hana. Þeir sem hafa upplifað hana vita hvort eð er hvað átt er við.
Harry Potter breytti ýmsu í lífi margra. Börn sem höfðu sýnt bókum áberandi áhugaleysi lifðu sig inn í bókaflokkinn og uxu upp og þroskuðust með honum. Þess eru dæmi að íslensk börn hafi ekki getað beðið eftir íslensku þýðingunni á bókunum og lagt til atlögu við þær á ensku, þrátt fyrir takmarkaða enskukunnáttu. Þau beittu sig hörku og lásu upp fyrir sig. Svona geta ungar sálir unnið sín þrekvirki. Foreldrar lásu líka bækurnar fyrir börn sín. Móðir las fyrstu bókina fyrir ungan son sinn og síðan eina af annarri næstu árin. Þegar lokabókin í flokknum kom út var sonurinn orðinn sautján ára táningur og á þeim aldri vilja þeir fæstir eyða of miklum tíma með foreldrum sínum. Þessi hefð, að hún læsi og hann hlustaði, var orðinn svo ríkur þáttur í lífi þeirra að móðirin las þessa síðustu bók fyrir soninn, sautján ára gamlan. Nú er drengurinn orðinn enn eldri og það sama á við um lestrarhestinn móður hans, en enn minnast þau sameiginlegu áranna með Harry Potter sem einstaks tíma í lífinu.
Harry Potter er hugarsmíði höfundar síns, J. K. Rowling, en um leið er hann raunverulegur í huga fjölmargra lesenda um allan heim. Þótt Harry Potter sé orðinn fertugur þá verður hann ætíð í huga lesenda sinna ungur drengur sem ólst upp við vanrækslu og þurfti að berjast við afar ill öfl en fann styrk sinn og margefldist með stuðningi vina sinna. Bækurnar um Harry Potter minna á svo margt sem skiptir máli í lífinu, eins og einlægni, forvitni, bjartsýni, ímyndunarafl og gleði. Allt eru þetta eiginleikar sem einkenna flest börn í ríkum mæli. Hver einasta fullorðna manneskja ætti að spyrja sjálfa sig hvort hún búi enn yfir þessum eiginleikum eða hvort svo illa sé komið að hún hafi glatað þeim á lífsgöngunni. Hafi hún týnt þeim er ráð að líta til Harry Potters og læra af honum. Hann hefur enn margt að kenna okkur.