Markmið alþjóðlegs 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Kynbundið ofbeldi er ástæða þess að hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins. Konur sem glíma við heimilisleysi og vímuefnavanda geta því miður ekki sótt þjónustu í Kvennaathvarfið. Hvert fara þær þá?

Síðustu ár hefur athygli verið vakin á því hve alvarleg staða kvenna með vímuefnavanda í þessu samfélagi er. Í dag er ekki til kvennaathvarf fyrir þennan hóp. Þessar konur geta snúið sér til Konukots, sem er neyðarskýli og einungis opið yfir nóttina og nú nýlega geta þær farið í Skjólið sem er dagathvarf rekið af Hjálparstofnun kirkjunnar. Það er hins vegar lokað um helgar. Í heimsfaraldrinum var tímabundið opnað athvarf þar sem konum var úthlutað herbergi sem þær áttu sjálfar, eins konar tímabundið kvennaathvarf fyrir konur sem nota vímuefni. Því var lokað í haust, ekki vegna skorts á skjólstæðingum, heldur að því er virðist vegna skorts á fjármagni. Fjölmargar konur á öllum aldri, fengu ekki tækifæri til að upplifa það öryggi sem fylgir tryggu húsnæði allan sólarhringinn.

Á bak við vanda á borð við heimilisleysi er oft löng áfallasaga. Kynbundið ofbeldi kvenna og heimilisofbeldi er oft undanfari heimilisleysis sem og vímuefnavanda. Í gegnum tíðina hefur þessi vandi verið álitinn persónubundinn og að hann einskorðist við einstaklinga, þessir einstaklingar beri þann vanda sem heimilisleysi er og þurfa að spjara sig sjálfir. Þetta hugarfar endurspeglast í skorti á úrræðum í dag. Á þessu hugarfari verður nú að verða breyting, það er orðið tímabært að samfélagið líti ekki á heimilisleysi fyrst og fremst sem vísbendingu um fjölbreyttan og þungan einstaklingsbundinn vanda heldur sem merki um árangursleysi kerfa.

Rótin gaf nýverið út greinargerð um heimilisleysi kvenna og ofbeldi sem má nálgast á vef Rótarinnar. Konur sem standa frammi fyrir heimilisleysi eru útsettari fyrir ofbeldi og eiga oft aðra reynslu að baki en karlar í sömu stöðu. Kerfin hafa í áratugi ekki gert ráð fyrir þessu. Samfélagið hefur brugðist þeim trekk í trekk og mikilvægt er að viðurkenna að jaðarsetning er ekki afleiðing af persónulegum brestum heldur afleiðing ofbeldis, vanrækslu, fátæktar og fleiri félagslegra þátta. Einstaklingar sem standa á jaðri samfélagsins eiga sífellt á hættu að brotið sé á mannréttindum þeirra eða þeim hreinlega gleymt. En við erum að læra og færast nær réttari stöðu fyrir þessar konur með auknum vilja þjónustuaðila, sveitarfélaga og ríkis.

Forgangsatriði verður að vera að tryggja öruggt húsnæði, efla félagslegt heilbrigði sem og að veita konum viðeigandi heilbrigðisþjónustu sem einblínir ekki einungis á einn vanda á borð við fíkn, heldur nálgist þær heildrænt út frá áfalla-, kynjamiðaðri og skaða­minnkandi nálgun. Við þurfum að leggja áherslu á að samþætta þekkingu á þessari mannúðlegu nálgun í þjónustu, til dæmis vímuefna- og geðmeðferð, og stuðla að meiri samvinnu og samþættingu þjónustu. Setja þarf á stofn úrræði sem gera ráð fyrir konum sem nota vímuefni.

Afleiðingar kynbundins ofbeldis eru margar og alvarlegar, heimilisleysi og vímuefnavandi geta verið með jaðarsettustu birtingarmyndum þess. Þessum konum má ekki gleyma.