Með reglu­legu milli­bili skjóta upp kollinum frum­vörp um aukið að­gengi að á­fengi. Það frum­varp sem nú liggur fyrir Al­þingi leggur m.a. til að heimila inn­lenda vef­verslun með á­fengi til neyt­enda í smá­sölu.
Ef ein­hver leyfir sér að mót­mæla þessu er sá hinn sami tafar­laust stimplaður með for­ræðis­hyggju og að vilja hefta frelsi annarra til að lifa lífinu á eigin for­sendum.

Örugg heimili

Gott og vel, það eru rök út af fyrir sig, en er þetta svona ein­falt? Hvað með rétt barna til að lifa í öryggi á heimilum sínum?

Sjúkra­skýrslur frá Vogi sýna að næstum þriðji hver karl­maður og rúm­lega tíunda hver kona hér­lendis leitar sér að­stoðar vegna alkó­hól­isma ein­hvern tíma á lífs­leiðinni. Þetta fólk kemur úr öllum lögum sam­fé­lagsins og tengist öðrum fjöl­skyldu­böndum sem for­eldrar, börn, barna­börn og syst­kini. Mig langar að beina at­hyglinni að við­kvæmasta að­stand­enda­hópnum, þ.e. börnum alkó­hól­ista. Börnum og ung­mennum sem ekki geta geta borið hönd fyrir höfuð sér og eru núna þessa dagana í mörgum til­fellum meira inni á heimilunum með for­eldrum sínum en ella. For­eldrum, sem auk þess að vera með á­hyggjur af heilsu fjöl­skyldunnar og lífs­viður­væri, berjast við eigin fíkn.

Skömmin og ó­öryggið

Setjum okkur í spor lítils barns sem elst upp við það að sá aðili sem það elskar mest og setur traust sitt á bregst traustinu reglu­lega. Mamma eða pabbi sem barnið elskar án skil­yrða breytist skyndi­lega úr því að vera góða trausta for­eldrið í að vera drukkið, ó­á­reiðan­legt og jafn­vel of beldis­fullt.
Það að alast upp við alkó­hól­isma markar djúp spor í sálar­líf barna og í mörgum til­fellum eiga þau börn mjög erfitt upp­dráttar síðar á lífs­leiðinni. Skömmin læðist inn í vitundina, skömm sem veldur því að barnið forðast að tala um það sem gerist heima. Barnið felur á­standið eftir bestu getu og skað­leg með­virkni tekur völd. Það býður jafn­vel ekki vinum heim því hvað er verra en að af­hjúpa ást­kært for­eldri dauða­drukkið heima?

Aukin á­fengis­sala

Barna­verndar­yfir­völd hafa á­hyggjur af því að til­kynningum til barna­verndar hefur fækkað um­tals­vert eftir að CO­VID-19 far­aldurinn kom upp. Á sama tíma berast fréttir frá vín­búðunum um mikla aukningu á sölu á­fengis. Aukningin fyrstu þrjár vikurnar í mars er um 20% saman­borið við sama tíma í fyrra og það þrátt fyrir mikla fækkun ferða­manna. Er skyn­sam­legt í slíku á­standi að bæta að­gengi að á­fengi í gegnum netið með heims­endingar­þjónustu?

Á vef Land­læknis­em­bættisins kemur fram: „Aukið að­gengi að á­fengi, sem leiðir til aukinnar á­fengis­neyslu, er lík­legt til að auka tíðni ein­stak­lings­bundinna og sam­fé­lags­legra vanda­mála sem geta tvö­faldað sam­fé­lags­legan kostnað vegna á­fengis­neyslu.“ Þar segir enn fremur: „Rann­sóknir á að­gengi á­fengis sýna að tak­mörkun af­greiðslu­tíma, fjölda sölu­daga og á fjölda sölu­staða helst í hendur við minni neyslu og minna tjón af völdum hennar.“

Hlustum á land­lækni

Hlustum á land­lækni, ekki bara þegar málið snýst um CO­VID-19 far­aldurinn, heldur líka þegar kemur að þeirri al­var­legu lýð­heilsu­vá sem of­neysla á­fengis er. Eiga börn þessa lands það ekki skilið?