Í júlí síðastliðnum lést María Mitr­ofanova, eina rússneska konan búsett á Íslandi sem hafði gegnt herþjónustu í Föðurlandsstríðinu mikla (seinni heimsstyrjöldinni). Lífshlaupi hennar og hetjudáð er lýst í bók Jökuls Gíslasonar, Föðurlandsstríðið mikla og María Mitr­ofanova. Þeir sem upplifðu hinar þungbæru hörmungar stríðsins eru óðum að týna tölunni. Sem fyrr leiðir það hugann að mikilvægi þess að varðveita minninguna um stríðsárin og arfleifð feðra okkar og afa sem tókst að eyða „brúnu pestinni“ í harðvítugri viðureign, með ofurmannlegu átaki og gríðarmiklum fórnarkostnaði. Þannig stóðu þeir vörð um rétt mannkyns til þess að lifa á þessari jörð.

Nú á dögum er hins vegar svo komið að við þurfum æ oftar að horfa upp á örvæntingarfullar tilraunir til að afbaka niðurstöður seinni heimsstyrjaldarinnar og gengisfella framlag bandalagsins gegn Hitler – einkum hlut Sovétríkjanna – til hins frækna sigurs. Í þágu léttvægra pólitískra stundarhagsmuna reyna menn að notfæra sér minningu hinna föllnu. Í von um skjótan en vafasaman ávinning hefja þeir oft upp til skýjanna hinar mannfjandsamlegu fyrirætlanir hugmyndafræðinga „nýja heimsskipulagsins“ sem óðu yfir borgir og sveitir Sovétríkjanna og annarra Evrópulanda og skildu eftir sig blóðuga slóð. Ekki er nóg með að aldraðir eftirlifandi liðsmenn SS-sveitanna skjögri eftir götum „lýðræðislegra“ höfuðborga og láti klingja í heiðursmerkjum sem þeir fengu fyrir dráp á vopnlausum almenningi, því að nú skekja ungir sporgöngumenn gömlu nasistanna borgir Evrópu með slagorðum og kveðjum að þeirra hætti. Bíræfnar skrúðgöngur þeirra, minnisvarðar um liðsmenn SS-sveitanna og þess háttar vanvirða saurgar minningu hinna óteljandi fórnarlamba nasismans og kyndir undir kynþáttahyggju, útlendingahatri og kynþáttamismunun í hinum ýmsu nútímamyndum. Þá er hætt við fjölgun nýnasistahreyfinga og annarra öfgahreyfinga.

Við getum ekki verið og megum ekki vera skeytingarlaus gagnvart þessum tilraunum til að láta samtíðarfólk okkar og komandi kynslóðir líta niðurstöður seinni heimsstyrjaldarinnar frá sama sjónarhóli og þeir sem hetjuvæða nasismann og láta innrásarheri hans líta út sem baráttumenn sem hafi „frelsað Evrópu“ undan kommúnisma. Raunverulegt eðli nasista er vel þekkt og staðfest í málsskjölum Nürnberg-réttarhaldanna, það birtist okkur í hundruðum borga sem stóðu eftir sem rústir einar og í milljónum tapaðra mannslífa. Ríki sem búa við fullþroskað lýðræði og er stjórnað af skynsemi ættu að láta raunverulega samstöðu sína koma fram með samstilltu átaki til að sporna við slíkum tilburðum en ekki með því að draga yfir þá fjöður eða látast ekki vita af tilvist þeirra.