Félag þýskukennara er 50 ára um þessar mundir. Þegar blaðað er í dagblöðum ársins 1970 ber ýmislegt fyrir augu, Hekla gaus, stíf la sprengd í Laxá, fyrsta konan settist í ráðherrastól, konur á rauðum sokkum fjölmenntu í kröfugöngu 1. maí og kröfðust jafnréttis og réttlætis og íslenskir námsmenn börðust fyrir bættu skólakerfi og betri námslánum. Á lista- og menningarsviðinu má nefna að Listahátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn með mörgum einstökum viðburðum.

Þetta var árið sem Félag þýzkukennara var stofnað. Helsti hvatamaður að stofnun þess og fyrsti formaðurinn var Baldur Ingólfsson, kennslubókahöfundur og þýskukennari við Menntaskólann í Reykjavík. Félagið er fyrir alla sem starfa við og hafa réttindi til þýskukennslu. Markmið félagsins hefur alla tíð verið að efla faglega umræðu og samstarf meðal þýskukennara og stuðla að aukinni fræðslu og menntun félagsmanna.

Verkefni félagsins hafa verið margvísleg gegnum árin og félagið varð strax mikilvægt fyrir menningarleg samskipti Þýskalands og Íslands. Það fór fljótlega að láta til sín taka á mörgum sviðum samskipta landanna og sem tengiliður við Þýskaland fyrir íslenska námsmenn og aðra sem leituðu til félagsins. Það hefur haft frumkvæði að margskonar starfi til að efla þýsku sem þriðja tungumál í samstarfi við Þýska sendiráðið á Íslandi og Goethe-stofnunina sem m.a. stóð að baki rekstri Þýska bókasafnsins í Reykjavík. Enn í dag er samstarf félagsins og Goethe-stofnunarinnar með miklum blóma og eru námskeið haldin með reglubundnum hætti fyrir þýskukennara hérlendis sem og erlendis.

Starfsemi Félags þýzkukennara hefur blómstrað gegnum árin og staðið fyrir nýbreytni til ef lingar á áhuga íslenskra nemenda í góðu samstarfi við sendiráð Þýskalands eins og að bjóða nemendum upp á Þýskuþraut þar sem þeir reyna kunnáttu sína ásamt stuttmyndakeppni og fleiri áhugaverðum hlutum. Einnig ber að nefna samstarf félagsins við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Gaman er að nefna til dæmis Þýskubílinn svonefnda sem heimsótti marga framhalds- og grunnskóla landsins með fróðleik um heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi 2006 og ók frú Vigdís Finnbogadóttir með úr höfuðborginni fyrstu kílómetrana. Margir félagar hafa tekið þátt í svonefndum Berlínarferðum og þróað jafnvel heila námsáfanga k ringum slíkar ferðir sem hafa verið afar vinsælar hjá nemendum og heppnast vel. Megi félagið blómstra áfram og skapa nýjar leiðir og hefðir í þýskunáminu nemendum framtíðarinnar til gagns og gamans.