Til að enda ofbeldi, þarf að koma í veg fyrir það.

Við verðum að leggja meiri áherslu á forvarnir, að fyrirbyggja að börnin detti í fossinn.

Áfall er ekki bara atburðurinn sem slíkur, einnig hvernig einstaklingurinn upplifir atburðinn og hvaða áhrif atburðurinn hefur á hann.

Allt ofbeldi getur valdið áfalli.

Áfallamiðuð nálgun byggir á að upplýsa einstaklinga og samfélag um útbreiðslu áfalla, afleiðingar og áhrif og að koma í veg fyrir að einstaklingar endurupplifi áföll.

ACE-rannsóknir eru stærstu rannsóknir í heiminum á tengslum áfalla í æsku við heilsufars- og félagsleg vandamál seinna á lífsleiðinni. Spurt er um ofbeldi í æsku með ACE-listanum.

Ein tegund af áfallaatburði er eitt ACE. Einstaklingur sem er með fjögur ACE eða fleiri, er 14 sinnum líklegri til að gera sjálfsvígstilraun og 11 sinnum líklegri til að fara í fíkniefnaneyslu. Það eru algengustu dánarorsakir ungra karlmanna á Íslandi.

ACE eykur einnig líkur á líkamlegum og geðrænum vandamálum seinna á lífsleiðinni.

Með áfallamiðaðri nálgun má nota ACE til að spyrja um ofbeldi á einfaldan hátt og bregðast við með viðeigandi úrræðum.

Til að koma í veg fyrir ofbeldi er mikilvægt að efla fræðslu um hvað ofbeldi er, bregðast við ofbeldi með því að aðstoða þolendur og gerendur.

Gerendur þurfa hjálp til að vinna úr sinni reynslu til að koma í veg fyrir endurtekin afbrot.

Að útiloka gerendur kemur ekki í veg fyrir ofbeldi. Við leysum ekki ofbeldi með ofbeldi.

Þeim sem beita ofbeldi líður sjaldnast vel og eru oft með áfallasögu. Þeir nota ofbeldi til að fá útrás fyrir vanlíðan eftir áföll, kunna kannski ekki aðra leið.

Við þurfum að spyrja: „Hvað kom fyrir þig?“ í stað: „Hvað er að þér?“

1. desember lýkur 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Þá verður rafrænt málþing í Háskólanum á Akureyri um áföll og ofbeldi. Upplýsingar á UNAK.IS.

Greinin er birt í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.