Það vakti eftirtekt þegar fyrrum alþingismaður birti pistil á fésbók sinni, þar sem hann lýsti almennum efasemdum um aðgerðir og ákvarðanir sóttvarnalæknis og annarra íslenskra yfirvalda í tengslum við COVID-19 veiruna. Hann bætti um betur og í viðtali í útvarpsþætti nokkrum hélt hann því fram að „útlendingum frá hættusvæðum hefði verið hleypt óskimuðum inn í landið til þess að koma smiti inn í samfélagið“ og virtist þar með ekki hafa fylgst með fréttaflutningi af skíðaglöð-um Íslendingum í Ölpunum. (Ekki það að nokkuð sé hægt að gagnrýna íslenskt skíðafólk í þessu sambandi og hefði veiran borist til landsins með einum eða öðrum hætti hvort sem er.)

Þá klykkti hann út með hjart-næmu, opnu bréfi til forsætisráð-herra, þar sem hann sagði meðal annars: „Þú ert vonandi mjög hugsi, enda hvílir ábyrgðin nú á þínum herðum og ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að vísa ábyrgð á sótt-varnalækni, nú þegar öllum má vera ljóst að aðferð hans er röng og getur leitt til stórtjóns.“

Ofangreind atburðarás lýsir þekktu áróðursbragði. Með ósann-indi og hálfsannleik að vopni er reynt að sá efasemdafræjum í huga fólks. Þrátt fyrir að margir láti sér fátt um finnast (sem betur fer), liggur óhróðurinn eftir eins og tyggjó-klessa, sem erfitt getur reynst að hreinsa upp að fullu, eins og jafnan er um tyggjóklessur.

Þannig má segja að bragðið hafi heppnast í þeim fáránleika að í sjónvarpsþætti þurftu yfirvöld að sverja þennan áburð af sér og voru einnig fluttar fréttir af því.

Sjaldan er ein báran stök og þingflokkur stjórnmálaflokks nokkurs birti heilsíðu auglýsingu af svipuðum (eða sama?) meiði í dagblöðum laugardaginn 21. mars. Þrátt fyrir öllu settlegri tón, fer ekki á milli mála að boðskapurinn er sama eðlis og megum við líklega búast við meiru af slíku á næstunni.

Á óvissutímum sem þessum ræð-ur úrslitum að allir leggist á eitt. Til viðbótar við dyggðir eins og sam-heldni, yfirvegun, sannleiksást og náungakærleik, er einnig mikilvægt að „mæla þarft eða þegja“.