Kosningabaráttan fyrir komandi alþingiskosningar er ekki til þess fallin að efla áhuga fólks á stjórnmálum. Lýsandi dæmi um þetta eru umræðuþættir í fjölmiðlum með frambjóðendum sem tala afar formúlukennt og eru svo óspennandi að það kostar andlegt átak að fylgjast með þeim til enda. Svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki neitt sérstakt fram að færa, allavega skortir þá sannfæringarkraft í kosningabaráttunni. Þeir tönglast á ósannfærandi frösum sem kjósendur hafa heyrt ótal sinnum áður og eru að mestu hættir að taka mark á. Það vantar hressileika í þessa kosningabaráttu og sannfærandi málflutning.

Stjórnmálabarátta á að vera öflug og innihaldsrík en nú er aðallega boðið upp á loforð sem kjósendur vita fullvel að verða ekki uppfyllt. Orð stjórnmálamannanna hljóma því eins og máttleysislegt mjálm. Undantekning frá því er garg og gól frá frambjóðendum Sósíalistaflokksins og Flokki fólksins. Sá hávaði á víst að sannfæra kjósendur um að þarna séu öflugir fulltrúar alþýðunnar á ferð. Fólk með sterka réttlætiskennd sem ofbjóði kaldlyndi og græðgi kapítalistanna sem öllu ráða. Með þeirri aðferð að öskra sem hæst má sjálfsagt hala inn einhver atkvæði.

Kosningarnar virðast aðallega snúast um það hvort fólk vilji áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf eða ekki. Vandi stjórnarandstöðunnar er að henni hefur ekki tekist að sýna fram á að mikil þörf sé á henni við stjórnvölinn. Það er ekki nóg að segja fólki að tími sé til að breyta bara til að breyta.

Í þessu pólitíska andleysi verður ekki annað séð en að Framsóknarflokkurinn hafi hitt á slagorð sem endurspeglar andrúmsloftið hvað best: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Þar opinberast fullkomlega innihaldsleysið og málefnadeyfðin sem stjórnmálaflokkarnir sýna í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn velur að segja það hreint út: Kjósið okkur – af því bara.