Í heilbrigðismálum hefur fátt yfirskyggt umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið ár um heimsfaraldurinn. En það er fleira sem gengur á og varðar öryggi og heilsufar fólks. Um áramót varð sú breyting að skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi kvenna fluttist frá Krabbameinsfélaginu til opinberra stofnana. Þannig færðist skimun fyrir brjóstakrabbameini til Landspítala í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og skimun fyrir krabbameini í leghálsi til heilsugæslunnar.

Samhliða þessu ákvað heilbrigðisráðherra breytingar á aldri þeirra sem boðin er skimun á brjóstum.

Ákvörðun ráðherrans um að færa skimunaraldur vegna brjóstakrabbameina í 50 ár var tekin án tillits til niðurstöðu fagráðs um brjóstakrabbamein sem birt var í skýrslu í október í fyrra. Fagráðið taldi að fara ætti að ráðleggingum Evrópusambandsins og hefja skimun við 45 ára aldur og fram til 74 ára. Skimunarráð taldi hins vegar ekki næg rök fyrir því. Áður, eða í febrúar 2019, hafði skimunarráð þó talið Evrópureglurnar fýsilegar.

Fréttablaðið hefur sagt frá því að 31 kona á aldursbilinu 40 til 50 ára greinist árlega með krabbamein í brjóstum hérlendis.

Skimunarráð bendir á í skýrslunni frá október í fyrra að skimanir leiði til ofgreininga sem sé viðurkenndur vandi á alþjóðavísu. „Átt er við greiningar á meinum í almennri skimun sem aldrei hefðu leitt til sjúkdóma eða ótímabærs dauða,“ segir þar. Einnig er fjallað um ofmeðhöndlun í kjölfar svonefndra ofgreininga þegar fólk gengst undir óþarfa meðferð sem getur skaðað heilsu þess. Ekki hefur komið nægjanlega skýrt fram að hvaða leyti hættara er við ofgreiningum í aldurshópi 40 til 50 ára kvenna en í hópi þeirra sem eldri eru. Hvað þá ofmeðhöndlun.

Á vef Krabbameinsfélagsins segir: „Landlæknir hafði lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum – en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Með nýju fyrirkomulagi víkja landlæknir og skimunarráð frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það sé rökstutt sérstaklega.“

Þessar fyrirhuguðu breytingar sættu gagnrýni í grasrótarhópum kvenna sem greinst hafa með krabbamein.

Nú hefur þessum breytingum á aldursviðmiðinu verið slegið á frest. Það bendir eindregið til að sú ákvörðun hafi ekki verið nægjanlega rökrétt á þeim tíma sem hún var tekin, hvað sem verður, og bendir einnig til að heilbrigðisráðherra hafi verið ólesinn í málinu.

Við státum okkur af því á tyllidögum að heilbrigðiskerfi okkar sé traust og skilvirkt. Sé svo á það að vera grundvallarþáttur að allar breytingar sem varða öryggi og heilsu borgaranna séu vandlega ígrundaðar og rökstuddar svo okkur sem viljum treysta á kerfið sé unnt að gera það áfram.