Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd seint á þriðjudag. Þar koma fram skýrar áherslur um ábyrgan og sjálfbæran rekstur og svigrúm til fjárfestinga. Ábyrg fjármálastjórn birtist einnig í því níu mánaða uppgjöri sem kynnt var í síðustu viku. Þar sem rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 5,2 milljarða og öll svið, utan eins, voru innan fjárheimilda og rekstrarniðurstaða samstæðunnar var jákvæð um 12,2 milljarða Þetta er þrátt fyrir að samdráttur hafi verið í hagkerfinu á þessu ári og verri en spáð var.

Meirihlutinn í Reykjavíkurborg ætlar að tryggja góða og agaða fjármálastjórn, því það er það sem er best fyrir borgarbúa og þannig sýnum við hvernig okkur er best treystandi fyrir þeim fjármunum og verkefnum sem okkur eru falin.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins upplýsti það hér í Fréttablaðinu á þriðjudag hversu sár hann er yfir því að Viðreisn skuli ekki hafa kosið að fara í meirihlutastarf í borginni með honum, Miðflokknum, Flokki fólksins og hugsanlega Sósíalistaflokknum. Hann setti þar fram tölur um skuldahækkanir sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Það er lítið mál að fara í talnaleikfimi líkt og hann gerði með áætlanir sem aldrei hafa raungerst og eðli málsins samkvæmt geta tekið breytingum eftir því hvernig Orkuveitan ákveður að haga endurgreiðslum á sínum lánum.

Við hjá Viðreisn viljum frekar horfa á raunverulegar tölur. Níu mánaða uppgjör A-hluta borgarinnar skilaði 5,2 milljarða afgangi, sem er lítillega minna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Níu mánaða uppgjör A-hluti ríkissjóðs sýnir hins vegar 21 milljarðs framúrkeyrslu, miðað við áætlanir. Á næsta ári mun A-hluti Reykjavíkur verða rekinn með 2,5 milljarða afgangi. Á sama tíma sýna fjárlög formanns Sjálfstæðisflokksins halla upp á 10 milljarða króna og verðum við að vona að áætlanir muni betur stand­ast en á þessu ári. Við þetta má bæta að Sjálfstæðisflokkurinn var á síðasta ári rekinn með 35 milljón króna halla, á meðan Viðreisn sýndi afgang upp á 2,3 milljónir. Á síðasta áratug hefur Sjálfstæðisflokkurinn einungis í eitt ár verið rekinn með hagnaði og er uppsafnað tap síðustu tíu ára um 309 milljónir króna.

Við hjá Viðreisn erum meira en tilbúin að veita Sjálfstæðismönnum ráð um hvernig best er að haga ábyrgri og agaðri fjármálastjórn líkt og við gerum hér hjá Reykjavíkurborg.