Opnun landamæranna fyrir bólusettum ferðamönnum utan Schengen, án þess að þeim væri gert að undirgangast sóttkví, hefur reynst ein stærsta efnahagsaðgerð stjórnvalda. Áhyggjur sumra þegar sú ákvörðun var tekin í mars, sem var pólitískt umdeild og sögð auka verulegar líkur á nýrri bylgju faraldursins innanlands, hafa ekki raungerst. Sóttvarnarökin fyrir því að mismuna bólusettum ferðamönnum á grundvelli ríkisfangs, hvort sem þeir kæmu frá Þýskalandi eða Bandaríkjunum, stóðust heldur aldrei neina skoðun, eins og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra nefndi í viðtali við Markaðinn í vikunni. Ekki þarf að fjölyrða um efnahagslegu áhrifin af því að hafa veitt ferðaþjónustunni líflínu fyrr en ella hefði orðið. Við sjáum þau meðal annars birtast í þeirri staðreynd að fjölda fólks er nú gert kleift að snúa til baka á vinnumarkaðinn. Ráðningar Icelandair að undanförnu á um 800 manns eru þar aðeins eitt dæmi um.

Halda mætti að allir myndu sjá ástæðu til að fagna því sérstaklega að okkar stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein – að minnsta kosti fyrir upphaf farsóttarinnar – sé að ná vopnum sínum á ný. Svo virðist ekki vera. Eftir að hafa síðustu vikur beint spjótum sínum að Play, með því að hvetja alla landsmenn og fjárfesta til að sniðganga hið verðandi flugfélag, telur forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem lagðist vitaskuld gegn tilslökunum við landamærin fyrr á árinu, nú rétt að leggjast til atlögu við greinina í heild sinni. Í fjölmiðlum í gær sögðust þau hafa „áhyggjur af endurreisn ferðaþjónustunnar“, þar sem hún fari af stað á verri grunni fyrir launafólk en áður, og einsýnt sé að umfangsmikil brotastarfsemi fyrirtækja muni nú hefjast að nýju – nánast eins og það sé regla fremur en undantekning.

Núna er þessum valdamiklu samtökum stýrt af fólki, sem best er lýst sem ábyrgðarlausum skæruliðum, sem hefur jafnan það eitt til málanna að leggja að krefjast launahækkana margfaldra á við það sem þekkist í okkar nágrannaríkjum.

Þetta er dæmalaus málflutningur, einkum þegar ljóst er að atvinnuleysið mun ekki taka að minnka að neinu ráði fyrr en ferðaþjónustan kemst í eðlilegt horf. Sú staðreynd er hins vegar af einhverjum ástæðum ekki mjög ofarlega í huga verkalýðshreyfingarinnar. Enginn gerir lítið úr þeim tilfellum þegar atvinnurekendur eru uppvísir að því að gerast brotlegir gagnvart launafólki, sem öll tölfræði sýnir að er afar fátítt, en það er öllu alvarlegra þegar haldið er uppi linnulausum áróðri – byggt á engum haldbærum gögnum – sem virðist hafa það eitt að markmiði að þjófkenna sem flesta fyrirtækjaeigendur í heilli atvinnugrein.

Sögulega séð hefur íslensk verkalýðshreyfing lagt höfuðáherslu á mikilvægi atvinnuuppbyggingar og sköpun nýrra starfa fyrir sína félagsmenn. Það er af sem áður var. Núna er þessum valdamiklu samtökum stýrt af fólki, sem best er lýst sem ábyrgðarlausum skæruliðum, sem hefur jafnan það eitt til málanna að leggja að krefjast launahækkana margfaldra á við það sem þekkist í okkar nágrannaríkjum – óháð aðstæðum í hagkerfinu hverju sinni – og hærri bótagreiðslna. Við núverandi aðstæður, þar sem stór hópur hefur verið án atvinnu um langt skeið, margt hvert ungt fólk, er hætta á að margir missi móðinn og endi sem bótaþegar um alla ævi. Því fylgir mikil sóun fyrir allt samfélagið. Þeir sem ráða för á vinnumarkaði þurfa þess vegna að rísa undir þeirri ábyrgð í stað þess að dæma sig ítrekað úr leik í vitrænni umræðu um íslenskt atvinnulíf.