Ítalski rithöfundurinn Umberto Eco hélt því fram að listar væru uppspretta siðmenningarinnar. Við áramót víkja listar yfir liðin afrek – bestu bíómyndir ársins, mest seldu bækurnar, flottasta fólkið – fyrir fögrum fyrirheitum – minna nammi, meira spergilkál, flottari ég.

Áætlanir sem gerðar voru í janúar 2021 urðu flestar mismunandi afbrigðum kórónaveirunnar að bráð. Marga skortir því vafalítið andagift við listagerð ársins 2022. Innblástur má þó finna víða.

Árið 1955 fannst leikkonunni Marilyn Monroe hún hjakka í sama farinu. Hún var 29 ára og naut vinsælda sem gamanleikkona en vildi alvarlegri hlutverk. Hún skráði sig í leiklistarnám og við árslok samdi hún lista um það hvernig hún hygðist gera 1956 að sínu ári:

 • Alltaf að mæta í tíma
 • Ef mögulegt: Taka háskólakúrs í bókmenntum
 • Reyna að skemmta mér þegar ég get – nóg á ég eftir að vera vansæl

Mynd bandarísku kvikmyndagerðarkonunnar Noru Ephron, When Harry met Sally, má finna á flestum listum yfir bestu áramóta­kvikmyndirnar. Skömmu fyrir andlát sitt árið 2012 skrifaði Ephron lista yfir kosti og galla tilverunnar. Það sem hún sagðist ekki mundu sakna var þurr húð, tölvupóstur, brjóstahaldarar, hljóðið í ryksugunni og pallborðsumræður um konur í kvikmyndum. Það sem hún kvaðst mundu sakna var börnin hennar, að lesa uppi í rúmi, hlátur, jólatré, vöfflur, hugmyndin um vöfflur.

Árið 1699 setti Jonathan Swift, höfundur Reisubókar Gúllívers, saman lista handa framtíðar sjálfum sér.

Þegar ég verð gamall ætla ég ekki að:

 • Kvænast ungri konu
 • Umgangast ungt fólk nema það kæri sig um það
 • Segja sömu söguna sama fólkinu aftur og aftur
 • Íþyngja öðrum með ráðleggingum nema eftir þeim sé óskað
 • Gorta af fyrri fegurð, líkamsstyrk eða kvenhylli

Listar hafa löngum verið handhæg leið til að vega og meta kosti og galla. Árið 1838 dró hinn 29 ára gamli Charles Darwin upp kosti og galla hjónabands.

Hjónaband: Börn (ef guð lofar); félagsskapur (og vinur í ellinni); skárra en að fá sér hund. Ekki hjónaband: Engin börn til að hugsa um mann í ellinni; samtöl við klára karla í klúbbum; enginn kostnaður og áhyggjur vegna barna; gæti lesið á kvöldin.

Sex mánuðum síðar kvæntist Darwin frænku sinni, Emmu Wedgwood, og eignuðust þau tíu börn. Útkoman varð hins vegar þveröfug þegar Albert Einstein skrifaði kröfulista handa eiginkonu sinni, Milevu Marić, rúmum 75 árum síðar, sem ætlað var að bjarga hjónabandi þeirra:

 • Þú sérð um að föt mín og þvottur séu í góðu ástandi, og að ég fái þrjár máltíðir á dag inni í herberginu mínu
 • Þú afsalar þér samskiptum við mig sem ekki eru nauðsynleg af félagslegum ástæðum
 • Þú hættir að tala við mig ef ég óska eftir því

Nokkrum mánuðum síðar yfirgaf Mileva eiginmann sinn ásamt sonum þeirra.

Fyrrnefndur Umberto Eco taldi lista tilraun okkar til að beisla óendanleikann. Alpha, Delta, Omicron. Megi 2022 koma böndum á þá endaleysu og fögur fyrirheit okkar verða að engu af öðrum ástæðum.