Í annað sinn á fjórum próftímabilum gerðist það fyrr í mánuðinum að framkvæmd svokallaðra samræmdra könnunarprófa fór í vaskinn. „Aðilar“ benda hver á annan og smám saman virðist ætla að skapast sátt um að þetta sé óheppilegt, en mikilvægast sé að endurskoða tilgang prófanna og að skaðinn sé hvort sem er ekki mikill þar sem svona samræmd próf séu úrelt og skipti engu máli. Kannski er það rétt. En kannski mjög rangt.

Af hverju stekkur laxinn?

Þegar illa gengur að ná fiski hugga laxveiðimenn sig gjarnan við náttúrufegurðina og reyna að njóta þess að vera í tengslum við lífríkið. Þótt ekkert toppi þá tilfinningu að finna fyrir töku þá getur verið notalegt og nærandi að fylgjast með fljúgandi fuglum, hlusta eftir skvettum frá stökkvandi laxi og sjá hann leika sér.

Veiðiferðir eru kannski ekki alltaf vettvangur djúpra heimspekilegra vangaveltna, en þó vakna stundum áleitnar tilvistarlegar spurningar þegar návígið við náttúruna er mikið. Þessar vangaveltur eiga einkum við um laxinn sjálfan. Veiðimaðurinn vill skilja bráðina til þess að geta egnt fyrir hana gildru. Hann vill snúa á skepnuna og beita meintum vitsmunalegum yfirburðum sínum ásamt fokdýrum tækjabúnaði til sigurs.

Ein vinsæl vangavelta er um ástæður þess að laxinn tekur upp á því í tíma og ótíma að stökkva upp úr djúpinu og berskjalda sig þannig gagnvart veiðimönnum og rándýrum. Það er greinilega leikur í þessu hjá laxinum en sennilegasta skýringin á þessu atferli er að eðlishvötin reki hann til þess að vera sífellt að þjálfa sig. Jafnvel þótt örlítil áhætta og álag felist í leiknum þá bliknar það í samanburði við mikilvægi þess að geta uppfyllt tilvistarlegan tilgang sinn. Ólíkt veiðimanninum þarf laxinn nefnilega að vera í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi til þess að stökkva upp í gegnum flúðir og fossa á leið sinni upp og niður ána.

Er leikur að læra?

Flestir leikir dýra og manna fela í sér einhvers konar þjálfun og þótt þjálfunin fari gjarnan fram í formi leiks, þá er tilgangurinn grafalvarlegur. Í samfélaginu nýtist bæði leikgleði og keppnisskap til þess að undirbúa fólk til þess að geta tekið að sér ábyrgð og sinnt verkefnum sem skipta raunverulegu máli, jafnvel þótt leikirnir hafi lítinn tilgang í sjálfum sér.

Mannheimar nútímans eru nefnilega margbrotnari en laxheimar. Samfélagið treystir á rafvirkja sem kunna sitt fag. Annars skapast eldhætta í húsum og fólk deyr. Við treystum á verkfræðinga sem kunna að reikna burðarþol. Annars hrynja brýr og fólk deyr. Við treystum á þekkingu lækna. Annars greinast sjúkdómar ranglega og fólk deyr. Allir þeir sem sinna mikilvægum verkefnum í samfélaginu og bera ábyrgð þurfa að venja sig á að taka mjög alvarlega mikilvægi þess að tileinka sér þekkingu og þjálfa upp færni.

Leikir mannanna eru því talsvert flóknari en sund- og stökkæfingar laxins. Það krefst margvíslegrar þekkingar og samfélagslegrar mótunar að gera manneskju tilbúna til þess að taka þátt í þjóðfélaginu sem fullorðinn einstaklingur. Sumt í þeim undirbúningi eru í raun „leikir“ þótt við nefnum það öðrum nöfnum. Skólaganga og nám eru til dæmis, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkurs konar þykjustuleikur. Við verjum löngum stundum í að æfa okkur í margháttaðri þekkingu og þjálfum ýmiss konar færni, vitandi að líklega kemur ekki til með að reyna beint á nákvæmlega þau atriði sem við þjálfum okkur í. Engu að síður er þjálfunin ómissandi bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Undirstaðan sem lögð er í uppeldi, hvort sem það á sér stað inni á heimili, á íþróttavelli, í tónlistarskóla eða almennri kennslustofu hefur þann tilgang að gera fólki mögulegt að sinna þeim störfum, rækja þær skyldur og uppfylla þau hlutverk sem samfélagið þarfnast. Í skólanum er skemmtilegt að vera fyrir börnin eins og það er skemmtilegt fyrir laxinn að stökkva í ánni. En líf laxins er mjög einfalt og þess vegna þarf hann ekki að fara í samræmd próf.

Leikirnir skipta máli

Og kannski er eitt það mikilvægasta sem þarf að venja sig á í skólanum að vera tilbúin til þess að mæta í prófraun og þurfa að treysta á eigin undirbúning við aðstæður þar sem það hefur einhvers konar afleiðingar hvort það gengur vel eða illa. Þetta er til dæmis tilgangur með að leggja fyrir og taka próf. Flestir læra meira á því að beita sig hörðu til að komast í gegnum Gísla sögu Súrssonar heldur en á að þekkja efni hennar. Markmiðið með prófum er ekki bara að læra efnið heldur að læra að undirbúa sig og taka verkefni alvarlega.

Þetta ættu yfirvöld menntamála í landinu að skilja mjög vel akkúrat núna þar sem þau hafa nýverið kolfallið á sínu eigin prófi.