Nú eru eflaust margir að huga að háskólanámi í haust og valkvíði farinn að segja til sín yfir öllum þeim spennandi möguleikum sem í boði eru. Ef áhuginn snýr að námsleiðum á heilbrigðisvísindasviði s.s. sjúkraþjálfun, sálfræði, læknisfræði eða hjúkrunarfræði er námsleið sem mig langar að segja ykkur örstutt frá sem of fáir vita af. Sú námsleið sem um ræðir er iðjuþjálfunarfræði og er kennd við Háskólann á Akureyri.

Námið í iðjuþjálfunarfræði byggist bæði á félags- og heilbrigðisvísindum þar sem við lærum að horfa á alla þá þætti sem við koma heilsu okkar og því sem við tökum okkur fyrir hendur dags daglega. Þannig lærum við ekki einungis um líkamsstarfsemi og einstaklingsbundna þætti sem hafa áhrif á daglegt líf heldur einnig í hvaða umhverfi einstaklingurinn býr og þau víðtæku áhrif sem það hefur á möguleika hans til þátttöku. Þannig lærum við að horfa á heilsu og lífsgæði einstaklinga í víðu samhengi og lærum hvernig við getum hjálpað fólki að setja sér markmið sem miða að því að bæta færni sína við iðju sem skiptir þá máli og hefur tilgang.

Það sem heillar mig hvað mest við námið og var ein af aðal ástæðum þess að ég ákvað að fara í iðjuþjálfunarfræði er hvað möguleikarnir að námi loknu eru margir og fjölbreyttir. Hvort sem þú vilt vinna að því að efla geðheilbrigði ungmenna, hjálpa fólki að takast á við breyttar aðstæður eftir slys eða veikindi eða beita þér fyrir bættu aðgengi fyrir fatlaða er iðjuþjálfunarfræði eitthvað fyrir þig. Þú getur farið frá því að vinna með börnum á leikskóla aldri yfir í að vinna með öldruðum og frá því að vinna inni á sjúkrahúsi yfir í skrifstofustarf hjá Sjúkratryggingum. Möguleikarnir eru margir en þeir snúast allir um að bæta lífsgæði fólks á einn eða annan hátt.

Iðjuþjálfunarfræði veitir manni góðan grunn bæði á þeim starfsvettvangi sem í boði er innan velferðarkerfisins en einnig fyrir framhaldsnám hvort sem það sé innan félagsvísinda eða heilbrigðisvísinda. Svo ef áhugi þinn liggur í því að vinna með fólki í að ná markmiðum sínum á eins fjölbreyttu sviði og hugsast getur mæli ég eindregið með því að þú kynnir þér námið betur á vef Háskólans á Akureyri www.unak.is