Á þessari bak­síðu hef ég áður ritað um mikil­vægi þess að við hrósum meira því sem vel er gert. Ég hef bent á að sökum þess hversu lítið við hrósum hvert öðru hér á landi þá er ís­lenskt hrós miklu verð­mætara en víða annars staðar, þar sem inni­halds­laus hrós eru hluti af venjum og dag­legum sam­skiptum. Á­stæða þess að ég fór að hugsa um hrós er spurning dóttur minnar um besta hrósið sem ég hefði fengið um ævina.

Ég hef fengið nokkur hrós en það er eitt sem stendur upp úr og á­stæða þess að ég man það er tíma­setningin og hver það var sem hrósaði.

Eftir að hafa verið hluti af síðustu kyn­slóðum ís­lenskra borgar­barna sem send voru í sveit man ég til­finninguna sem fylgdi því að vera hrósað fyrir dugnað eftir brös­uga byrjun í sveitinni, mínu fyrsta al­vöru starfi. Þá áttaði ég mig á því að á vinnu­markaði ertu fyrst og síðast dæmdur af því hvernig þú vinnur verkin og hvert við­horf þitt er til vinnu. Þegar Óli bóndi sagði að ég væri ekki sá aumingi sem hann hélt í fyrstu og sagði mig dug­legan, man ég enn til­finninguna sem hríslaðist niður hrygginn. Um leið rétti ég úr bakinu og kinkaði á­kveðið til hans kolli um að ég hefði með­tekið skila­boðin.

Síðan hafa bæst við nokkur svona at­vik til við­bótar, þegar sam­tíma­menn mínir og konur hafa sagt eitt­hvað fal­legt við mig ein­mitt þegar ég þurfti mest á því að halda. Það að fólk hafi haft trú á manni jafn­vel þegar fram­tíðin var kannski ekki teppa­lögð á beinu brautinni, skipti máli.

Þetta eru hrósin sem breyttu for­ritinu í hausnum á mér og sem ég man enn þann dag í dag. Af því rétta fólkið sagði þau á réttu augna­blikunum. Vertu þannig fólk.