Við viljum kannski stýra köttum, en kettir eru ólíkir öllum öðrum gæludýrum. Þeim er í mesta lagi hægt að leiðbeina. Ef mannfólkið myndi allt hverfa einn daginn yrðu það trúlegast kettirnir sem myndu flestir lifa af með sína sjálfsbjargarhvöt, þó að það séu alltaf sísvangir hundar sem birtast okkur í bíómyndum.

Úr köttum hefur frelsisþráin og sjálfstæðið ekki verið ræktað. Ólíkt hundum til dæmis ákváðu kettir sjálfir að flytja inn á heimili. Hagsmunir þeirra og heimilanna fóru einfaldlega saman. Þeir fengu hlýju og héldu híbýlum og hlöðum lausum við nagdýr.

Sjálfstæði búsetunnar hefur haldið áfram og velja þeir sér stundum annað heimili en það sem við mannfólkið helst myndum kjósa. Þeir koma sér út úr aðstæðum sem þeir telja sér ekki bjóðandi, til dæmis þegar nýtt húsgagn er komið á heimilið, eða nýr einstaklingur. Þeir sitja mjálmandi fyrir utan ókunnug hús, því þar gæti verið betri matur eða mýkra rúm. Þeir vilja hafa valkosti sína á hreinu.

Sumir velja að eiga sér mörg heimili. Það þekkja til dæmis allir sem fylgjast með Skeifukettinum Diego, sem er trúlega frægasti köttur landsins. Hann skottast daglega yfir Miklubrautina til að liggja á blaðabunkum í A4, kíkja yfir í Hagkaup til að sníkja sér mat og leggja sig svo aftur á Domino’s, því þar er hlýtt. Svo fer hann heim, þar sem hans bíður hlýtt bæli, góður matur og athygli. Þetta er rútínan hans, því kettir eru ótrúlega vanafastir í sínu sjálfstæði. Það getur tekið þá marga daga að fyrirgefa ef uppáhalds stóllinn þeirra er örlítið færður úr stað.

Akureyringar ætla núna að fara að líta á ketti sem hvert annað gæludýr, sem búið er að rækta úr frelsisþrá og sjálfstæði. Frelsið á að læsa inni, því það gæti verið þægilegra fyrir suma.